Þegar farfuglarnir okkar flykkjast heim til Íslands er vorið komið og sumarið á næsta leiti. Laugardaginn 25. apríl munu þeir Gunnar Þór Hallgrímsson, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi, leiða gönguferð í Grafarvog þar sem farfuglarnir safnast saman. Ferðin er í röðinni Með fróðleik í fararnesti.
Þeir félagar munu bjóða upp á fræðslu um líf þeirra fugla sem ber fyrir augu en þátttakendur eru hvattir til að taka með sér sjónauka og gjarnan fuglabækur til að fletta í. Það verður samt án efa hægt að fletta duglega upp í þeim Gunnari Þór og Tómasi Grétari enda miklir fuglasérfræðingar og með margra ára reynslu í rannsóknum á fuglum himinsins.
Margir af þeim farfuglum sem halda nú til í Grafarvogi eru langt að komnir. Ótrúleg ratvísi farfugla hefur enda lengi verið rannsóknarefni vísindamanna.
Brottför verður kl. 11 á laugardag og mun hópurinn ganga saman frá bílastæðinu við Grafarvogskirkju. Við mennirnir þurfum að sætta okkur við að ferðast með fótunum á sama tíma og fuglarnir svífa um himinninn.