Guðrún Benedikta Elíasdóttir opnar sýningu á málverkum sínum, þar sem náttúran og náttúruöflin skipa stóran sess, ekki síst jöklarnir og átök elds og íss.
Verkin vinnur hún með temperu eða litablöndu sem hún býr til sjálf og kallar „patine au vin“, en blandan inniheldur m.a. hvítvín og egg, ösku úr Eyjafjallajökli og steinmulning sem Guðrún hefur safnað víða á Íslandi. Efni úr náttúrunni fá nýtt hlutverk á striganum, segja má að verkin séu umhvefisvæn endurvinnsla.
Biðin eftir yfirvofandi eldgosi er nálæg í verkum Guðrúnar, jöklarnir eru fyrirferðamiklir, en árið 1976 féll hún í jökulsprungu í Fláajökli og tók það hana hátt í 30 ár að safna kjarki til að fara aftur á jökul.
Nú eins og þá er Guðrún heilluð af litastpilinu og fegurðinni sem stafar af þessum magnþrungnu risum sem minnka þó allt of hratt. Einnig heilla hana vangaveltur um átök elds og íss, öskufall á fannhvíta snjóbreiðuna og afleiðingarnar af því.
Nánar um listakonuna hér: www.rbenedikta.com
Verið öll velkomin á opnun á þrettándanum kl. 14!
Sýningin stendur yfir til 15. febrúar 2018.