Frístundamiðstöðvarnar Tjörnin og Gufunesbær voru í tveimur efstu sætunum í könnuninni Stofnun ársins 2017-borg og bær. Þrjár aðrar frístundamiðstöðvar voru í átta efstu sætunum.
Val á Stofnun ársins og Fyrirtæki ársins er samvinnuverkefni SFR stéttarfélags, VR. og St.Rv. auk fjármálaráðuneytisinsins sem tekur þátt í könnuninni fyrir alla ríkisstarfsmenn. Tjörnin og Gufunesbær lentu í tveimur efstu sætunum með fimmtíu starfsmenn eða fleiri. Orkuveita Reykjavíkur varð í því þriðja. Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar.
Frístundamiðstöðin Tjörnin varð til með sameiningu við frístundamiðstöðina Kamp sem lenti í 1. sæti í þessum flokki í fyrra og Frostaskjóls sem lenti í 2. sæti í fyrra. Um 2.000 börn og unglingar nýta sér þjónustu frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar á degi hverjum. Í Tjörninni vinna yfir 200 starfsmenn á 13 starfsstöðvum. Áhersla er lögð stefnumiðaða þàtttökustjórnun.
Frístundamiðstöðin Gufunesbær var stofnuð haustið 1998. Gufunesbær hefur m.a. umsjón með öllum sjö félagsmiðstöðvunum í Grafarvogi, átta frístundaheimilum við alla grunnskóla í Grafarvogi ásamt því að reka frístundaklúbb fyrir fötluð ungmenni á aldrinum 10-16 ára.
Hinar þrjár frístundamiðstöðvar borgarinnar urðu allar hlutskarpar í efstu sætum könnunarinnar; Ársel í Árbæjarhverfi sem lenti í fjórða sæti, Kringlumýri sem lenti í sjötta sæti og Miðberg í Breiðholti sem lenti í því áttunda.
Þá lenti Skrifstofa Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar í fjórða sæti könnunarinnar yfir stofnanir með færri en fimmtíu starfsmenn, Listasafn Reykjavíkur í því sjötta og Bílastæðasjóður í því tíunda í sama flokki.
Könnunin um Stofnun ársins er stærsta reglulega vinnumarkaðskönnun sem framkvæmd er hér á landi og gefur mikilvægar upplýsingar um stöðu starfsmanna á vinnumarkaði. Því má draga þá ályktun að það sé bæði gaman og gefandi að vinna í frístundastarfi borgarinnar því könnunin byggir á viðhorfi félagsmanna til vinnu sinnar og yfirmanna, líðan þeirra í starfi, starfsumhverfi, og hvernig samskiptum er háttað á vinnustaðnum.
Viðurkenningar veita starfsstöðum leyfi til að auðkenna sig sem fyrirmyndar starfsstað eða stofnun.