Fjölnir vann glæsilegan sigur á Val í leik liðanna í 1. umferð Pepsídeildar karla í knattspyrnu á Hlíðarenda í kvöld. Lokatölur, 1-2, eftir að Fjölnir hafði leitt í hálfleik, 0-1. Það var Þórir Guðjónsson sem skoraði bæði mörk Fjölnis í kvöld. Það fyrra á 37. mínútu úr vítaspyrnu og það síðara á 69. mínútu. Guðjón Pétur Lýðsson skoraði eina mark Valsmanna á 80. mínútu.
Það er óhætt að segja að þessi byrjun Fjölnismanna hafi komið mörgum sparkspekingum á óvart en Valsmönnum er spáð góðu gengi í sumar. Að vinna sigur á Hlíðarenda hlýtur að gefa Fjölnismönnum byr í seglin fyrir komandi átök.
Næsti leikur Fjölnis í deildinni verður gegn Eyjamönnum á heimavelli 7. maí.