Fjölnir vann frábæran sigur á Selfyssingum í öðrum leik liðanna um sæti í Olísdeildinni í handknattleik á Selfossi í kvöld. Fjölnir hefur unnið tvo fyrstu leikina í einvíginu og þarf einn sigur til viðbótar til að tryggja sér sæti í efstu deild á næsta tímabili. Lokatölur fyrir austan fjall í kvöld, 20-23.
Gríðarleg stemning var á leiknum enda mikið í húfi fyrir liðin. Fyrri hálfleikur var lengstum í jafnvægi og um tíma var jafnt, 6-6, en Selfyssingar voru beittari síðasta kaflann í hálfleiknum og höfðu þriggja marka forustu í leikhléi, 11-8.
Fjölnir gerði fyrstu þrjú mörkin í síðari hálfleik og jöfnuðu metin, 11-11. Jafnræði var á með liðunum eftir það og munurinn aldrei meiri 1-2 mörk. Fjölnismenn reyndust sterkari á lokakaflanum og tryggðu sér að lokum glæsilegan sigur.
Þriðja viðureign liðanna verður í Dalhúsum á föstudagskvöldið og eins og áður sagði geta Fjölnismenn með sigri þá tryggt sér sæti í deild þeirra bestu.