Fjölnir vann stórsigur á Víking frá Ólafsvík í Pepsídeild karla í knattspyrnu í Grafarvoginum í kvöld. Lokatölur leiksins urðu, 5-1, eftir að staðan í hálfleik var, 2-0. Fjölnir situr í fjórða sæti deildarinnar með 9 stig en Víkingur hefur einu stigi meira í öðru sætinu en þetta var fyrsta tap liðsins í deildinni.
Fjölnismenn léku vel í kvöld og áttu gestirnir fá svör á hendi. Martin Lund Pedersen og Gunar Már Guðmundsson skorðu fyrir Fjölni í fyrri hálfleik. Í upphafi síðari hálfleiks minnkuðu gestirnir muninn og var það að verki Hrvoje Tokic en þetta var jafnframt hans fimmta mark í deildinni.
Fjölnismenn létu þetta mark ekki slá sig út af laginu og bættu við sínu þriðja marki mínútu síðar. Viðar Ari Jónsson skoraði stór glæsilegt mark með skoti fyrir utan vítateig. Hans Viktor Guðmundsson, sem hafði komið inn á sem varamaður, skoraði fjórða markið og Marcus Solberg gerði fimmta markið. Glæsilegur sigur í höfn hjá Grafarvogsliðinu og mikil og góð stemning en yfir eitt þúsund áhorfendur fylgdust með leiknum.
Allt Fjölnisliðið á hrós fyrir sína frammistöðu en með svona leik áfram hefur liðið alla burði til að blanda sér í toppbaráttuna.
Næsti leikur Fjölnis verður 30. maí gegn Fylki í Árbænum.
Tíðindamaður grafarvogsbuar.is var sjálfsögðu á leiknum og tók þessar myndir sem fylgja fréttinni.