Fjölnismenn hefja Pepsídeildina í knattspyrnu af miklum krafti en liðið hefur unnið sína fyrstu tvo leiki í deildinni. Fjölnis lagði ÍBV að velli í Grafarvoginum í gær, 2-0, og fylgdu þannig eftir glæsilegum sigri á Valsmönnum á Hlíðarenda í fyrstu umferðinni. Það var Daninn Martin Lund Pedersen sem skoraði bæði mörk Fjölnismanna með tíu mínútna millibili seint í síðari hálfleik.
Leikurinn var ekki tíðinda mikill í fyrri hálfleik en öllu meira líf var í þeim síðari en þá náði Daninn knái að skora tvö mörk og tryggja sínum mönnum góðan og sanngjarnan sigur. Það verður ekki annað sagt en Fjölnis hefji þetta mót vel og verður gaman að fylgjast með liðinu í næstu leikjum.
Næsti leikur Grafarvogsliðsins verður gegn ÍA á Skaganum 12. maí klukkan 19.15.