Hinn 17 ára Fjölnismaður Dagur Ragnarsson hefur farið mikinn nú eftir áramótin með þátttöku sinni á tveimur sterkum skákmótum, Skákþingi Reykjavíkur 2015 og Nóa – Síríus mótinu sem er boðsmót. Dagur varð í 6. sæti á Skákþinginu og er nú sem stendur í 3. sæti á boðsmótinu.
Það sem vekur þó mesta athygli við frammistöðu Dags er að hann er að vinna eða gera jafntefli við stórmeistara og alþjóðlega meistara og búinn að hækka sig um tæplega 200 ELÓ skákstig á þessum stutta tíma.
Dagur er með 2059 skákstig og í vikunni vann hann skákmeistarann Karl Þorsteins sem er með 2456 stig. Auk Dags eru félagar hans úr Rimaskóla og nú MH, þeir Jón Trausti Harðarson og Oliver Aron Jóhannesson á svipuðum nótum og hækka sig stöðugt á skákstigum og að verða ótrúlega sterkir skákmenn.
Þetta eru góð tíðindi fyrir Skákdeild Fjölnis sem treysta á þessa þrjá ungu skákmenn til að halda A – sveit Fjölnis í öruggu sæti 1. deildar. Það er því óhætt að segja að framtíðin sé björt.