Fjölnismenn virtust vera með unninn leik í höndunum þegar Valsmenn komu í heimsókn á Fjölnisvöllinn í viðureign liðanna í Pepsdídeild karla í knattspyrnu í kvöld. Fjölnismenn mættu ákveðnir til leiks og það voru ekki liðnar nema sjö mínútur af leiknum þegar Aron Sigurðarson var búinn að koma Grafarvogsliðinu yfir.
Fjölnismenn voru sterkari aðilinn í leiknum og með smáheppni hefðu þeir getað bætt við fleiri mörkum. Þegar skammt var til leiksloka og fátt virtist ætla að koma í veg fyrir sigur Fjölnis í leiknum jöfnuðu Valsmenn. Var þar að verki Einar Karl Ingvarsson.
Fjölnismenn reyndu allt hvað þeir gátu það sem eftir lifði leiksins en tíminn reyndist of stuttur og liðin sættust á jafnan hlut. Á tólfta hundrað áhorfendur fylgdust með leiknum en góð aðsókn hefur verið að leikjum Fjölnis á öllu tímabilinu til þessa.
Eftir þennan leik eru Fjölnismenn áfram í fimmta sætinu með 25 stig. Næsti leikur liðsins verður á mánudaginn kemur, 24. ágúst, en þá fara Fjölnismenn upp á Skaga og mæta þar Akurnesingum.