Fjölnismenn gefa ekkert eftir í toppbaráttunni í Pepsídeild karla í knattspyrnu. Fjölnir tók á móti Skagamönnum á Extravellinum í Grafarvogi í kvöld og unnu stórsigur, 4-0. Gunnar Már Guðmundsson opnaði markareikninginn á 18. mínútu með góðu skallamarki. Marcus Solberg bætti við öðru marki á 38. mínútu eftir fyrirgjöf frá Gunnari Má.
Skagamenn komu mjög ákveðnir til leiks í síðari hálfleik en höfðu ekki erindi sem erfiði. Hans Viktor Guðmundsson skoraði þriðja markið á 53. mínútu og einni mínútu fyrir leikslok skoraði Gunnar Már sitt annað mark í leiknum og aftur með skalla.
Fjölnismenn hafa komið sér fyrir í toppbaráttuna og ætla greinilega ekkert að gefa eftir í þeirri baráttu. Liðið er að leika góðan bolta, liðsheildin er sterk og verður spennandi að fylgjast með liðinu í næstu leikjum. Fleiri myndir hérna…
Í næstu umferð tekur Fjölnir á móti toppliði FH en leikurinn verður háður 15. ágúst.