Fjölnir tapaði fyrsta leiknum gegn Víkingi í úrslitakeppni liðanna um sæti í Olís-deildinni á næsta keppnistímabili. Lokatölur leiksins urðu, 27-21, en viðureign liðanna fór fram í Víkinni í Fossvogi. Í hálfleik var staðan, 12-8, fyrir Víkingum sem höfðu yfirhöndina allan leikinn.
Markvörður Víkinga, Magnús Gunnar Erlendsson, varði mjög vel í markinu og var öðrum ólöstuðum besti maður vallarins. Fjölnismenn náðu sér aldrei almennilega á strik, náðu þó að minnka muninn í 22-20 en heimaliðið gaf ekki eftir og tryggði sér að lokum sex marka sigur.
Önnur viðureign liðanna verður í Dalhúsum á sumardaginn fyrsta en það sem lið sem verður fyrr til að vinna þrjá leiki tryggir sér sæti í efstu deild.