Forráðamenn Skákdeildar Fjölnis geta verið ánægðir með árangur skáksveitanna þriggja sem tefldu fyrir deildina á Íslandsmóti skákfélaga 2015 sem lauk í Rimaskóla um helgina. A sveitin, sem á sæti í deild hinna bestu, B sveit sem var að tefla í fyrsta sinn í 3. deild og C sveit sem tefldi í 4. deild. Fjölnir virðist standa best í skákinni af öllum deildum félagsins því 4. sætið í 1. deild af 10 liðum er betri árangur en þekkist í boltaíþróttunum. Skákdeildin hefur á 11 árum unnið markvisst barna-og unglingastarf sem er að skila sér órtrúlega vel. Í sterkri A sveit í 1. deild eru þrír 16-17 ára gamlir strákar sem urðu margsinnis Norðurlandameistarar með Rimaskóla.
Enginn skákmaður getur lengur bókað sigur gegn þeim Degi, Oliver Aroni eða Jóni Trausta. Það sama á við um B sveitina sem náði 5. sæti, nýliðar í 3. deild. B sveitin er líka að stórum hluta afrekskrakkar úr Rimaskóla á aldrinum 13 – 23 ára og eru þessir krakkar allir bara á uppleið. Dagur Ragnarsson hinn 17 ára gamli Norðurlandameistari í A flokki sýndi enn og aftur hversu sterkur skákmaður hann er orðnn því að hann fór taplaus í gegnum Íslandsmót skákfélaga 1. deild og hlaut 7 vinninga af 9 mögulegum.
Í B sveitinni í 3. deild var það Hörður Aron Hauksson sem stóð sig best og ótrúlega vel, því að hann fékk 6,5 vinninga úr þeim 7 skákum sem hann tefldi. Hörður Aron varð Norðurlandameistari með Rimaskóla árin 2004 og 2008 en hvíldi skákina á menntaskólaárum. Skákdeildin státar af þremur afreksstúlkum sem tefla með B – sveitinni, þær Nansý, Hrund og Sigríður Björg. Skákdeild Fjölnis er nokkurs konar „spútniklið“ 1. deildar og að halda 4. sætinu með engan erlendan skákmann síðustu tvær umferðirnar er auðvitað bara afrek sem góð liðsheild og litlar breytingar innan hópsins skapa.