Fjölnismenn lögðu KR að velli 2:1 í 14. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Leikið var í Grafarvogi. Sigurmark leiksins skoraði Mark Magee nýkominn inn á sem varamaður á 77. mínútu.
Leikurinn byrjaði afar fjörlega og eftir aðeins 4. mínútna leik varði Þórður Ingason frábærlega frá Óskari Erni Haukssyni úr dauðafæri.
Mínútu síðar bruna Fjölnismenn upp völlin og fá innkast sem Viðar Ari Jónsson bakvörður tók. Boltann fékk Guðmundur Karl Guðmundsson sem fékk að taka á móti boltanum og rölta í makindum sínum í átt að markinu. Hann tók síðan frábært skot beint í markvinkilinn fjær, 1:0 fyrir Fjölni.
Fjölnismenn börðust afar vel í fyrri hálflleik og KR-ingar fengu ekki mörg færi. Besta færi þeirra fékk líklega Gonzalo Balbi sem var nánast sloppinn í gegn á 35. mínútu. Hann lék á tvo varnarmenn Fjölnis áður en sá þriðji náði að bjarga í horn.
Síðari hálfleikurinn var keimlíkur þeim fyrri. KR-ingar voru áfram sterkari og uppskáru að lokum mark á 56. mínútu. Þá tók Hólmbert Aron Friðjónsson aukaspyrnu af 25. metra færi eftir að brotið hafði verið á Jacob Schoop. Hólmbert, sem er örfættur, smellti boltanun utan við vegginn og í nærhornið, óverjandi fyrir Þórð í markinu, 1:1.
Mikil barátta einkenndi leikinn eftir það þar sem KR-igar höfðu áfram yfirhöndina.Það voru hins vegar Fjölnismenn sem skoruðu sigurmarkið á 77. mínútu.
Þá slapp Mark Magee, nýkominn inn á sem varamaður, einn í gegn eftir sendingu frá Guðmundi Karli og kláraði færið af mikilli yfirvegun framhjá Sindra í markinu, 2:1 lokatölur og sigur baráttuglaðra Fjölnismanna í höfn.
Heimild: MBL.is