Fjölnir missti Stjörnuna og KR upp fyrir sig í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag þegar Stjarnan mætti í Grafarvoginn og vann afar torsóttan 1:0-sigur. Stjörnumenn eru komnir í 2. sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina eftir þrjá sigurleiki í röð.
Fjölnismenn voru talsvert sterkari í fyrri hálfleiknum og sköpuðu sér nokkur færi sem þeim tókst ekki að nýta. Snemma í seinni hálfleik virtust þeir eiga heimtingu á vítaspyrnu þegar boltinn fór í hönd Heiðars Ægissonar innan teigs, en Þorvaldur Árnason dómari sá atvikið vel og var ekki sammála.
Fjölnismenn voru einfaldlega ekki nógu beittir í vítateig andstæðingana og nýttu ekki þau tækifæri sem þeir fengu til að skora hjá Stjörnumönnum í dag. Garðbæingar voru slakir í fyrri hálfleik og það hefðu heimamenn átt að nýta sér betur.
Í síðari hálfleik komu gestirnir grimmari til leiks og innkoma Baldurs á 55.mínútu gaf þeim kraft. Þeir skoruðu gott mark eftir eina af sínum fimm hornspyrnum en Fjölnismenn fengu átta hornspyrnur í leiknum sem sköpuðu sjaldan hættu.
Heimamenn fengu þar að auki nokkur tækifæri til að skora úr aukaspyrnum en spyrnumenn Fjölnis voru ekki á skotskónum í dag. Undir lokin settu Fjölnismenn pressu á Garðbæinga sem vörðust vel og Guðjón Orri Sigurjónsson var þar að auki öflugur í markinu.