Fjölnir knúði fram oddaleik gegn Hamri í einvígi liðanna í úrslitakeppni um laust sæti í Dominos-deildinni í körfuknattleik á næsta tímabili. Liðin áttust við í fjórða leik liðanna í Hveragerði í gærkvöldi og fór svo að Fjölnir hafði betur í tvíframlengdum leik.
Að loknum venjulegum leiktíma var staðan, 98-98, svo framlengingu þurfti til að knýja fram úrslit. Að lokinni henni var aftur jafnt, 105-105. Fjölnir hafi að lokum betur í annarri framlengingu, 114-116, eftir æsispennandi viðureign.
Róbert Sigurðsson fór hamförum í leiknum og skoraði 43 stig. Colin Anthony Pryor skoraði 25 stig og hirti 19 fráköst.
Fjölnir og Hamar mætast því í oddaleik í Dalhúsum á laugardag klukkan 17. Í hinni viðureigninni á milli Vals og Breiðabliks þarf einnig oddaleik en liðin standa jöfn þar, 2-2, og mætast í hreinum úrslitaleik á sunnudag.