Fjölnir vann dýrmætan sigur á Víkingum í Fossvoginum í kvöld. Með sigrinum tylltu Fjölnismenn sér í annað sætið í Pepsídeildinni en 18. umferðin hófst í dag. Daninn Martin Lund kom Fjölni yfir í leiknum á 34. mínútu en aðeins tveimur mínútum síðar höfðu Víkingar jafnað metin og þar var að verki Bjarni Páll Runólfsson.
Bæði liðin áttu sín tækifæri í síðari hálfleik, sérstaklega þó Fjölnismenn, en það var ekki fyrr en níu mínútum fyrir leikslok sem Fjölnir vann leiðina í mark Víkings og aftur var Martin Lund þar á ferðinni. Víkingar sóttu nokkuð það sem eftir lifði leiksins en höfðu ekki erindi sem erfiði.
Fjölnir á fjórum leikjum ólokið í deildinni og er í harðri baráttum um Evrópusæti. Næsti leikur liðsins er á heimavelli í Grafarvogi 15. september þegar Þróttarar koma í heimsókn.