Fjölnir tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum Coca-Cola bikarkeppni karla í handknattleik í kvöld þegar liðið lagði Selfoss, 29-24, í Dalhúsum í Grafarvogi. Fjölnir hafði eins marks forystu í hálfleik, 14-13, en mestan hluta hálfleiksins leiddu Selfyssingar.
Fjölnismenn hófu síðari hálfleik af miklum krafti og náðu um tíma sex marka forskoti. Gestirnir náðu að minnka bilið í tvö mörk en heimamenn hrukku aftur í gírinn og tryggðu sér að lokum fimm marka sigur.
Kristján Örn Kristjánsson var markahæstur Fjölnismanna með níu mörk og Brynjar Loftsson gerði sex mörk. Ingvar Guðmundsson varði yfir 20 skot í marki Fjölnis.
Þess má geta að þessi sömu lið mætast í 1. deildinni á föstudagskvöldið kemur á Selfossi. Fjölnir er í þriðja sætinu með 14 stig en Selfoss er í öðru sætinu með 16 stig.