Fjölnir gerði jafntefli við Val á Hlíðarenda, 3-3, í Pepsídeildinni í knattspyrnu í kvöld. Leikurinn var fjörugur eins og lokatölur leiksins gefa glöggt til kynna. Valsmenn komust yfir á 10. mínútu leiksins en ellefu mínútum síðar var Aron Sigurðsson búinn að jafna metin fyrir Grafarvogsliðið. Ballið var bara rétt byrjað því Þórir Guðjónsson kom Fjölni yfir á 28. mínútu. Valsmenn jöfnuðu og komust yfir, 3-2, en Emil Pálsson jafnaði undir lok fyrri hálfleiks.
Allt annað var uppi á teningnum í síðari hálfleik, fátt markvert gerðist og liðin sættust á jafntefli.
Fjölnir byrjar mótið með ágætum og situr í fimmta sætinu með átta stig að loknum fimm leikjum. Næsti leikur Fjölnis verður gegn Skagamönnum á heimavelli á sunnudaginn kemur.