Fjölnir mætir Víkingi úr Reykjavík í Pepsídeild karla í knattspyrnu á Extravellinum í Grafarvogi klukkan 19.15 í kvöld. Þetta er leikur í 7. umferð mótsins en Fjölnir er fyrir leikinn í sjötta sæti með tíu stig en Víkingar í því áttunda með 8 stig.
Með sigri í kvöld geta Fjölnismenn fikrað sér nær í toppbaráttu deildarinnar.
Liðið hefur verið að leika mjög vel á köflum í leikjum sínum til þessa í deildinni og víst er að erfiður leikur bíður liðsins í kvöld. Eftir leiki kvöldsins verður gert þriggja vikna hlé á Pepsídeildinni vegna þátttöku íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í knattspyrnu í Frakklandi.
Fyrsti leikur Íslendinga á mótinu verður við Portúgal 14. júní og heldur liðið utan á þriðjudag. Annað kvöld leikur liðið lokaleik sinn fyrir EM gegn Liechtenstein á Laugardalsvellinum.