Miðvikudaginn 5. nóvember verður Félagsmiðstöðvadagurinn haldinn hátíðlegur í félagsmiðstöðvum fyrir börn og unglinga í Reykjavík. Markmið dagsins er að vekja athygli á því kraftmikla starfi sem þar fer fram og bjóða gestum og gangandi að kynnast því af eigin raun.
Hvað eru unglingar með á heilanum er yfirskrift dagsins að þessu sinni.
Félagsmiðstöðvadagurinn er haldinn fyrir tilstilli SAMFÉS, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi, en Félagsmiðstöðvadagurinn á þó rætur sínar að rekja til Reykjavíkur og hefur þar verið haldinn hátíðlegur frá 2005. Dagskrá félagsmiðstöðvanna verður fjölbreytt í tilefni dagsins en þar má bæði sjá hefðbundin viðfangsefni í opnu starf félagsmiðstöðva sem og sérstakar uppákomur tileinkaðar félagsmiðstöðvadeginum.
Í Félagsmiðstöðinni 100og1 sem starfar í miðborginni verður gestum og gangandi m.a. boðið upp á að reyna sig í svokölluðu „tiedye“, skemmtilegri leið til að lita fatnað auk þess sem kaffi verður á könnunni. Pylsusala verður í Félagsmiðstöðinni Dregyn í Grafarvogi en þar verður starfsemi félagsmiðstöðvarinnar jafnframt kynnt ásamt mörgu fleiru.
Fulltrúar Dregynjar hafa sett saman stutt kynningarmyndband um félagsmiðstöðina í tilefni dagsins sem jafnframt er boðskort til allra áhugasamra. Félagsmiðstöðin 105býður gestum í hippahorn auk þess sem efnt er til kökukeppni og í Gleðibankanum ætla unglingar að skora á foreldra og aðra fullorðna í borðtennis. Þau standa jafnframt fyrir vöfflusölu en kaffið er í boði hússins. Í Fjörgyn í Grafarvogi verður tónlist áberandi og að auki verður Skrekksatriði Foldaskóla sýnt og í Púgyn ætla unglingar í unglingaráði að bjóða upp á leiki auk veitingasölu. Félagsmiðstöðin Sigyn tók upp slagorðið „Remember, remember the 5th november“ í tilefni dagsins og ætlar að bjóða upp á Skrekksatriði, hópleiki og veitingar.
Dagskrár og opnunartíma allra félagsmiðstöðvanna í Reykjavík og heimilisföng má finna á Facebook- síðum þeirra sem og heimasíðum þeirra.