Fjölnir gerði jafntefli við Stjörnuna, 1-1, í Pepsídeild karla í knattspyrnu á Fjölnisvelli í kvöld. Eftir leikinn situr Grafarvogsliðið áfram í fimmta sætinu, nú með 27 stig, og tveimur stigum á eftir Valsmönnum sem eru í fjórða sætinu.
Enn eitt jafnteflið varð staðreyndin en Fjölnir gat hæglega skorað mun fleiri mörk í fyrri hálfleik en allt kom fyrir ekki.
Fjölnir var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og það var Gunnar Már Guðmundsson sem kom liðinu yfir á 24. mínútu. Þrátt fyrir góða tilburði tókst Grafarvogsliðinu ekki að bæta við fleiri mörkum.
Síðari hálfleikur var ekki eins beittur og sá fyrri og sóknir Garðbæinga þyngdust eftir sem á leið. Þeir jöfnuðu á 77. mínútu og var Guðjón Baldvinsson þar að verki og þar við sat.
Fjórar umferðir eru eftir af mótinu og hafa Fjölnismenn alla burði til að klifra ofar í deildinni. Nú verður gert hlé í deildinni vegna verkefna íslenska landsliðsins í knattspyrnu.
Næsti leikur Fjölnis verður 13. september gegn Leikni á útivelli.