Dagur íslenskrar náttúru er í dag og af því tilefni er rifjað upp gamla slagorðið Hreint land – fagurt land. Fátt hefur mótað íslenska þjóð eins og náttúran. Íslendingar hafa aðlagað líf sitt samspili elds og ísa, dyntóttum veðurguðum og kröftugum sjávarföllum. Um leið hafa þeir notið alltumlykjandi náttúrufegurðar og haft lífsviðurværi sitt af ríkulegum gjöfum náttúrunnar.
Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur 16. september ár hvert og eru einstaklingar, skólar, stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök hvött til að hafa daginn í huga í starfsemi sinni. Á þessum degi er hollt að staldra við og njóta náttúrunnar í umhverfi okkar, virða hana fyrir okkur, velta fyrir okkur fjölbreytileikanum, dást að ólíkum formum, litum, áferð, hljóðum og lykt og síðast en ekki síst átta okkur á þeim fjölmörgu og verðmætu gildum sem felast í náttúrunni og mikilvægi þess að hlúa að velferð hennar.
Dagur íslenskrar náttúru var stofnaður þann 16. september árið 2010. Dagurinn er fæðingardagur Ómars Ragnarssonar og stofnaður til heiðurs því mikla starfi sem Ómar hefur lagt til náttúruverndar og almenningsfræðslu um mikilvægi íslenskrar náttúru sem og allra þeirra sem lagt hafa sitt af mörkum til að fræða um íslenska náttúru. Þessa dags er minnst um land allt í dag.