Fjölnismenn tryggðu sér jafntefli gegn Val á lokamínútu viðureign liðanna á Extravellinum í Grafarvogi í kvöld. Það var Birnir Snær Ingason sem tryggði heimamönnum jafntefli með glæsilegu marki en hann hafði tíu mínútum áður komið inn á sem varamaður.
Jafntefli verða að teljast sanngjörn úrslit en það stefndi allt í það að Valur myndi hirða öll stigin sem í boði voru.
Fjölnir byrjaði leikinn vel og var komið yfir eftir fimm mínútna leik og var Gunnar Már Guðmundsson þar að verki. Valsmenn komust betur inn í lekinn og náðu að jafna með marki frá Kristni Frey Sigurðssyni.
Valsmenn komust síðan yfir á 51. mínútu og skoraði Kristinn Ingi Halldórsson markið. Fjölnir jafnaði svo í blálokin en liðið hafði tapað tveimur leikjum í röð þar á undan.
Með jafnteflinu er Fjölnir í fjórða sætinu með 20 stig í deildinni að loknum 12 leikjum. FH er efst með 25 stig, Breiðablik 22 stig og Stjarnan 21 stig í þriðja sætinu.
Næsti leikur Fjölnis verður gegn ÍBV í Eyjum 3. ágúst.