Íbúalýðræðisverkefnið Betri hverfi var fyrir helgina verðlaunað sem fyrirmyndarverkefni á Norrænu höfuðborgaráðstefnunni. Betri hverfi fékk verðlaun í flokknum Almenn samskipti.
Verðlaunin Nordic Best Practice Challenge eru veitt höfuðborgunum í fjórum flokkum. Alls voru 24 verkefni tilnefnd. Tilgangurinn með verðlaununum er að vekja athygli á þeim verkefnum sem þykja skara fram úr hjá borgunum og geta gagnast öðrum borgum á Norðurlöndunum og víðar.
Halldór Auðar Svansson, formaður stjórnkerfis og lýðræðisráðs, veitti verðlaununum viðtöku á höfuðborgaráðstefnunni í Norræna húsinu í dag. Halldór kvaðst vera stoltur yfir verðlaununum. „Það er frábær viðurkenning að Reykjavíkurborg skuli vinna þessi verðlaun. Þau fara auðvitað líka til allra borgarbúa sem hafa notað Betri hverfi til að setja fram sínar hugmyndir að framkvæmdum sem og til Íbúa sess. sem þróa og reka vefinn að baki Betri hverfum og Betri Reykjavík. Þetta hlýtur að vera Reykvíkingum hvatning til frekari dáða á sviði þátttökulýðræðis,“ sagði Halldór.
Íbúalýðræðisverkefnið Betri hverfi hefur verið í gangi síðan á árinu 2012 og snýst um að íbúar komi sjálfir með hugmyndir að verkefnum í öllum hverfum borgarinnar. Ferlið er tvíþætt, fyrst er óskað eftir hugmyndum frá íbúum, borgin fer yfir hugmyndirnar og stillir allt að 20 hugmyndum fram í rafrænum íbúakosningum í hverju hverfi. Í ár kusu Reykvíkingar 107 hugmyndir að verkefnum í rafrænum íbúakosningum í febrúar. Verkefnin verða framkvæmd að mestu leyti á þessu ári. Kosningaþátttaka var 23% betri miðað við árið í fyrra.
Í flokknum Samgöngur hlaut Óslóarborg verðlaunin fyrir rafvæðingu samgangna. Osló stefnir að því að verða leiðandi höfuðborg raf-farartækja í heiminum en borgin hefur búið í haginn fyrir rafbíla og rafreiðhjól með ýmsum hætti. Borgin hefur m.a. gert samninga um kaup á 1000 raf-farartækjum.
Í flokknum Umhverfi hlaut Kaupmannahöfn verðlaunin fyrir nýja hönnun Tåsinge torgsins en það er hannað til að taka við úrhellisrigningu á umhverfisvænan hátt og veita regnvatni til sjávar, auk þess sem það er mikilvægt grænt svæði í Sankt Kjeld hverfinu á Austurbrú. Torgið er fyrsta svæðið í Kaupmannahöfn sem er hannað til að aðlagast loftlagsbreytingum.
Í flokknum Öryggi fékk Mariehamn verðlaunin fyrir tölvulausn fyrir eldri borgara sem búa einir. Lausnin er afar einföld í notkun og í gegnum hana geta aldraðir verið í myndsambandi heima hjá sér við heilbrigðisstarfsmenn eða félagsþjónustu en auk þess geta nánir ættingjar verið í sambandi í gegnum hugbúnaðarkerfið sem nefnist AIDis.
Að auki fengu verkefni í hverjum flokki sérstaka útnefningu. Stokkhólmur fyrir forskóla án eiturefna, Helsinki fyrir safnstrætóa og sólarorkuver þar sem íbúar geta keypt sólarsellu og fylgst með orkuframleiðslunni og Osló fyrir umferðarsmáforrit sem ætlað er börnum til að finna öruggustu leiðina í skólann.
Allar höfuðborgirnar tilnefndu fulltrúa úr háskólasamfélögunum í dómnefnd. Guðrún Pétursdóttir, dósent við Háskóla Íslands, sat í dómnefndinni fyrir hönd Reykjavíkur.