Sum afrek eru sýnileg og minnisstæð. Afrek kvenna eru þó mörg hver dulin almenningi, falin í hversdagsleikanum og hafa aldrei verið verðlaunuð. Í september verður afrekasýning kvenna á Íslandi opnuð í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þar verður gerð grein fyrir framlagi kvenna til samfélagsins, persónulegum og pólitískum sigrum, afrekum kvenna í hversdagslífi og á opinberum vettvangi.
Reykjavíkurborg óskar nú eftir frásögnum af afrekum kvenna, sögum af konum sem hafa með beinum eða óbeinum hætti haft áhrif á eigið líf eða annarra, tekist á við erfið eða óvenjuleg verkefni eða afrekað eitthvað annað sem gaman væri að miðla til sýningargesta.
Sýningin verður með fjölbreyttu sniði, notast verður við myndir, texta, hljóð- og myndupptökur og annað það sem fólki kann að detta í hug til að koma afrekunum sem best til skila.
Saumakona, húsfreyja, skíðameistari, jógakennari, kokkur, vélstjóri, bankastjóri, móðir, allar sögur sem þú telur að feli í sér afrek eru vel þegnar. Hafir þú upplýsingar um eitthvað sem gæti átt erindi á sýninguna væri ábending um slíkt vel þegin. Við leitum að sögum og efni á hvaða formi sem er.
Tekið verður á móti tillögum til og með 24. ágúst nk. Endilega bendið vinum, vandamönnum og samstarfsfólki á að senda ábendingar og hugmyndir um afrek kvenna á netfangið afrekasyning@reykjavik.is.
Á www.afrekskonur.is er hægt að koma sögum af afrekskonum á framfæri með Facebook-tengingu. Þá geturðu taggað afrekskonuna þína ef hún er á Facebook og skorað á vini þína að segja frá konunum í sínu lífi. Sögurnar sem fást gegnum síðuna verða einnig notaðar á sýningunni. Taktu þátt með okkur!
Afrekssögur kvenna leynast í hversdagsleikanum (Myndband).