Dagskrá Menningarhúsa Borgarbókasafnsins er að öllu jöfnu ótrúlega fjölbreytt og vönduð. Aðsóknin á marga viðburði á nýju ári hefur verið frábær og á suma hefur verið fullt út úr dyrum.
Árið byrjar vel á Borgarbókasafninu. Fyrsti viðburður ársins var í menningarhúsinu í Grófinni en þar fengu börn að lesa fyrir sérþjálfaða hunda og er nánast fullbókað í alla tímana.
Í Árbæ komu talmeinafræðingarnir Eyrún og Þóra og sungu nokkrar Lubbavísur fyrir fullu húsi og brugðu á leik með fjárhundinum Lubba sem leitaði að málbeininu.
Berglind Björgúlfsdóttir var með tónlistarstund fyrir yngstu kynslóðina í Spönginni og var þéttsetið af mæðrum og litlum krílum sem tóku virkan þátt og hlýddu áhugasöm á. Sögustund á náttfötunum í Sólheimum þarf vart að kynna en hún er fastur dagskráliður hjá fjölda barna og er fullskipað í hvert sæti.
Í Grófinni var á dögunum opnuð myndasögusýning Lilju og Simma. Skemmtilegt viðtal var tekið við verkefnastýruna og teiknarana í beinni útsendingu í Fréttatíma Stöðvar 2 og á Café lingua á Hótel Marina var ljúf stemning en þar leiddu skáld og ljóðaunnendur gesti í ljóðaferðalag heimshorna á milli.
Prjónakaffið í Árbæ hefur verið með eindæmum vinsælt og er greinilegt að landinn fær aldrei nóg af hannyrðum og góðum félagsskap og leshringir safnanna eru fullskipaðir af áhugasömum bókaormum.
Tvær sýningar voru opnaðar helgina 16-17. janúar, Polaroid – Fortíðarþrá í Grófinni en sýningin er samsýning nokkurra félaga úr Félagi íslenskra samtímaljósmyndara. Guðrún Ingibjartsdóttir opnaði sýninguna Veröldin mín í Boganum í Gerðubergi og fékk til sín marga góða gesti.
Í Gerðubergi var boðið upp á tónleikana, Jazz í hádeginu, og var þétt setið í stóra salnum þegar þeir félagar Leifur Gunnarsson og Agnar Már Magnússon léku af hjartans list og svo endurtóku þeir leikinn í Spönginni daginn eftir.
Og rúsínan í pylsuendanum er óneitanlega aðsóknarmetið sem var slegið í Gerðubergi á Heimspekikaffið Hefur hugsun áhrif á heilsu? með Gunnari Hersveini og Láru G. Sigurðardóttur lækni en þar mættu yfir 230 manns og var setið í öllum skúmaskotum hússins.