Að byrja í grunnskóla og á frístundaheimili

Skólatöskur í lit

Innritun barna í grunnskóla Reykjkavíkur fer fram í gegnum www.rafraen.reykjavik.is. Í febrúar hóst innritun fyrir börn í Reykjavík sem eru að fara í 1. bekk grunnskóla og á frístundaheimili, haustið 2018.

Þegar barn fer úr leikskóla í grunnskóla er augljósasta breytingin sú að námið er lögbundið en nám í leikskóla er valkvætt. Foreldrum er því skylt að sjá til þess að barn þeirra sæki grunnskóla. Foreldrar geta svo valið hvort þeir skrá börn sín á frístundaheimili að hefðbundnum skóladegi loknum.

Hægt er að hafa samband við grunnskóla, frístundamiðstöðina í hverfinu eða Þjónustuver Reykjavíkurborgar í síma 411-1111 til að fá leiðbeiningar við að skrá börnin. Áður en sótt er um dvöl á frístundaheimili þurfa börn að vera skráð rafrænt í viðkomandi grunnskóla. Umsókn um frístundaheimili gildir fyrir eitt skólaár í senn.

Skv. lögum um leik- og grunnskóla ber þeim að vera í samstarfi sem stuðlar að samfellu í uppeldi og menntun barna en samstarfið getur verið breytilegt eftir hverfum og skólum. Upplýsingar um börnin fylgja þeim á milli skólastiga svo unnt sé að mæta sérhverju þeirra þar sem það er statt í þroska og námi. Foreldrar skulu upplýstir um hvaða upplýsingum er miðlað á milli skóla en það er lagaleg skylda leikskólastjóra og annarra sérfræðinga á vegum sveitarfélagsins að koma þeim til skila.

Frístundaheimili eru starfrækt við alla grunnskóla Reykjavíkurborgar. Þau bjóða upp á fjölbreytt tómstundastarf þegar skóladegi barna í 1. – 4. bekk lýkur til kl. 17:00. Fast mánaðargjald árið 2018 er 17.285 kr. á mánuði fyrir 5 daga vistun með síðdegishressingu. Sjá nánar gjaldskrá frístundaheimila. Ekki er hægt að tryggja öllum börnum dvöl á frístundaheimili fyrr en tekist hefur að manna stöður frístundaleiðbeinenda/ráðgjafa. Umsóknir eru afgreiddar í þeirri röð sem þær berast en börn sem eru að hefja skólagöngu hafa forgang að dvöl á frístundaheimilum. Sjá nánar reglur um þjónustu frístundaheimila.

Sótt er um fyrir skólaárið 2018-2019 á Rafrænni Reykjavík.
Börn í Klettaskóla sækja frístundaheimilið Guluhlíð eða félagsmiðstöðina Öskju. Veljið umsókn um frístundastarf fyrir fötluð börn og unglinga.

Upplýsingar um annað frístundastarf er að finna á vefnum www.fristund.is. Þar er jafnframt að finna upplýsingar um frístundakortið sem foreldrar geta notað upp í greiðslu fyrir frístundastarf 6-18 ára barna, hvort sem það er frístundaheimili eða greiðsla á þátttöku- og æfingagjöldum.

Ef börn innritast í sjálfstætt starfandi skóla, sérskóla eða fara erlendis er óskað eftir að upplýsingar um það verði sendar á netfangið sfs@reykjavik.is. Sama á við ef börn fara í almennan grunnskóla utan Reykjavíkur.

Sjá skóladagatal 2018-2019

Kynningarfundir í grunnskólum

Flestir, ef ekki allir skólar, bjóða foreldrum til  kynningarfundar eða námskeiðs við upphaf grunnskólagöngunnar þar sem þeir eru upplýstir um starfið fram undan. Þannig eru foreldrar betur í stakk búnir til að tileikna sér hlutverk skólaforeldra. Yfirleitt er boðið til sérstaks fundar með kennara, nemanda og foreldrum hans þar sem fjallað er um skólagönguna fram undan og stöðu nemandans.

Áhugi og viðhorf foreldra skipta sköpum

Þegar barn byrjar í grunnskóla þurfa foreldrar að gera ráð fyrir að það krefjist tíma þeirra og athygli. Það skiptir miklu máli að þeir kynnist daglegu starfi barnsins í skólanum. En fyrst og fremst ættu foreldrar grunnskólabarna að sýna starfi barna sinna áhuga og virðingu með því spyrja þau, hlusta og ræða á jákvæðum nótum um skólann og námið. Með viðhorfum sínum senda foreldrar börnum sínum skilaboð um hvað felist í því að vera góður nemandi.

 

Um höfundinn

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.