Borgarráð ákvað á fundi sínum í dag að hætta við áformaðar hækkanir á gjaldskrám í öllum helstu þjónustuflokkum Reykjavíkurborgar sem taka áttu gildi 1.janúar. Með þessu tekur Reykjavíkurborg frumkvæði í því að farin verði ný leið í komandi kjarasamningum með því að sporna við verðbólgu og auka kaupmátt.
Hætt verður við hækkanir á gjaldskrám vegna leikskóla, skólamáltíða, frístundaheimila, bókasafnsskírteina, sundlaugakorta og vegna þjónustu sem velferðarsvið Reykjavíkurborgar veitir.
„Með þessu viljum við sýna vilja okkar í verki og leggja okkar af mörkum til að hér náist sátt um að efla kaupmátt og almenn lífskjör á landinu,“ segir Jón Gnarr borgarstjóri.
Í greinargerð með tillögu borgarstjóra um gjaldskrár segir að forystumenn aðila vinnumarkaðarins hafi átt fundi með borgarstjóra og formanni borgarráðs að undanförnu og kallað eftir því að
Reykjavíkurborg endurskoði áformaðar gjaldskrárhækkanir til að unnt sé að fara nýja leið við kjarasamninga og tryggja að launahækkanir hverfi ekki í verðbólgubáli.
„Við lítum á þetta sem framlag til komandi kjarasamninga,“ segir Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs. „Við erum með þessu líka að viðurkenna að við undirbúning fjárhagsáætlunar gerðum við einsog vant er, að reikna verðhækkanir í samfélaginu inn í gjaldskrárnar okkar. Við höfum nú hlustað á rök fyrir því að verðbólguna verði að stöðva með sameiginlegu átaki. Auðvitað þurfa allir að taka þátt til að það takist en við erum tilbúin að stíga fram, vera fyrst og segja stopp. Hingað og ekki lengra. Þannig vonumst við til að fá aðra að borðinu, ríkið, verslun og þjónustu, því allt skiptir máli til að ná böndum á verðhækkanir sem skipta launafólk máli,“ segir Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs. „Nú mun reyna á hvort við náum samstöðu og komum í veg fyrir sjálfkrafa hækkun verðlags sem gera launahækkanir að engu. Við eigum öll mikið undir því að þetta takist,“ segir Dagur.
Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar byggir á forsendum Þjóðhagsspár Hagstofu Íslands frá því í júní sl. Náist almenn samstaða um átak til að sporna við víxlverkunum launa og verðlags og þess í stað lögð áhersla á varanlega aukningu kaupmáttar í komandi kjarasamningum geta gjaldskrárhækkanir borgarinnar staðið óbreyttar út næsta ár. Ef forsendur bregðast hins vegar áskilur Reykjavíkurborg sér rétt til að taka gjaldskrár til endurskoðunar á síðari hluta árs 2014.
Tekið skal fram að einstakt gjald fyrir sund mun þó hækka ásamt aðgangseyri að listasöfnum borgarinnar en þessar gjaldskrár snúa ekki síst að ferðamönnum, þar sem borgarbúum bjóðast kort sem hækka ekki. Sorphirðugjöld hækka á svarta tunnu (óflokkað sorp) en lækka á bláar tunnur (flokkað sorp) en í heildargjaldtöku af sorpi er borginni skylt að láta enda ná saman og standa undir kostnaði við þjónustuna. Þannig má segja að íbúar í Reykjavík hafi val um að lækka sorphirðugjöld sín umtalsvert með því að flokka heimilissorpið. Taka ber fram að þrátt fyrir boðaðar gjaldskrárhækkanir hefði Reykjavíkurborg engu að síður verið með ódýrari þjónustu en flest íslensk sveitarfélög.