Leikskólarnir Bakki í Staðahverfi og Hamrar í Víkurhverfi í Grafarvogi verða sameinaðir.
Sameining leikskólanna mun koma til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2017. Skóla- og frístundaráð samþykkti tillögu þessa efnis á fundi sínum 24. ágúst.
Börnum hefur á undanförnum árum fækkað til muna í leikskólanum Bakka og telst hann því ekki hagkvæm rekstrarleg eining. Leikskólinn er ekki fullnýttur en hann rúmar 69 börn. Um 50 börn á leikskólaaldri eru búsett í Staðarhverfi. Bakki var áður rekinn með leikskólanum Bergi á Kjalarnesi undir heitinu Bakkaberg. Leikskólinn Berg var í vor sameinaður með grunnskóla og tónlistarskólanum á Kjalarnesi
Leikskólinn Hamrar rúmar 88 börn auk 16 barna í lausri stofu. Samtals mun nýr sameinaður leikskóli í Víkur- og Staðahverfi því rúma á bilinu 157 – 173 börn.
Akstursleið á milli starfseininga sameinaðs leikskóla er 1,7 km og stysta gönguleið um 1,8 km.