Þetta er búið að sprengja utan af sér fyrir þó nokkru síðan og er staðan þannig að mikill hiti er í foreldrum og forráðamönnum þeirra sem stunda þessar íþróttir.
Eins og mátti lesa í Morgunblaðinu í dag þá „Stefnir í uppreisn í Grafarvogi“
Handknattleiks- og körfuknattleiksdeildir Fjölnis hafa fyrir löngu fullnýtt og vel það æfingaaðstöðu félagsins í íþróttahúsinu í Grafarvogi. Ástandið versnar ár frá ári og nú svo komið að flokkar innan handknattleiksdeildar fá færri æfingar á viku en hjá flestum öðrum félögum á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem sameina verður æfingar hjá nokkrum aldursflokkum. Ekki vegna þess að iðkendur eru fáir heldur vegna þess að æfingatíma vantar.
„Það er mjög erfitt að skipuleggja sig og vinna fram í tímann við þær aðstæður sem Fjölni er boðið upp á,“ segir Andrés Gunnlaugsson, handknattleiksþjálfari hjá Fjölni. „Ég vona að menn sjái að sér og geri eitthvað fyrir vorið því annars held ég að það stefni í einhverskonar uppreisn í Grafarvogi. Foreldrar sætta sig ekki þá skertu þjónustu sem í boði er í Grafarvogi þegar horft er til annarra sveitarfélaga. Málið er auðvelt að leysa ef pólitískur vilji er til staðar,“ segir Andrés sem segir að Grafarvogur og Fjölnir sitji á hakanum hjá borgaryfirvöldum þegar kemur að aðstöðu til æfinga og keppni í handknattleik og í körfuknattleik.
Eitt hús í 20 þúsund manna byggð
„Aðstaðan er því miður ófullnægjandi. Það er óviðunandi að í rúmlega 20 þúsund manna byggð skuli vera aðeins eitt íþróttahús fyrir innanhússboltagreinar. Maður horfir öfundaraugum til aðstöðunnar sem meðal annars er í Kópavogi,“ segir Andrés og er ómyrkur í máli. Hann nefndir sem dæmi þá aðstöðu sem meistaraflokkar karla og kvenna í handbolta búa við í dag.
„Meistaraflokkur kvenna fær ekki æfingar á mánudögum og föstudögum fáum við hálfan sal sem er bagalegt að á síðustu æfingu fyrir leik sem yfirleitt fara fara fram á laugardögum. Þess utan fáum við eina æfingu í viku í Kórnum í Kópavogi á miðvikudagskvöldum. Meistaraflokkur karla fær klukkustund á mánudögum, enga æfingu á miðvikudögum, ekkert á föstudögum ef ekki er leikur hjá þeim.“
Fimm árgangar saman
Við stöndum frammi fyrir því með óbreyttri aðstöðu að á næsta vetri verðum við hjá Fjölni að láta fimm árganga stúlkna æfa saman, frá níunda bekk í grunnskóla upp í þriðja bekk í framhaldsskóla. Þá verðum við með einn af þremur fjölmennustu kvennaflokkum landsins. Þessi flokkur fær ekki séræfingar heldur verður að æfa með fjórða flokki. Allir sem vilja sjá skilja að þetta gengur ekki,“ segir Andrés og undirstrikar að aðstöðuleysið komi mjög niður á starfi fleiri deilda en þeirrar sem hefur handbolta á sínum snærum. Aðstaða bara og og unglinga í Grafarvogi sé verri en víðast hvar.
Þetta sé vandi Fjölnis, ekki bara handknattleiksdeildarinnar. Körfuknattleiksdeild Fjölnis er í sömu sporum og handboltinn. Gróskan er ekkert síðri í körfuboltanum hjá Fjölni og mikill metnaður innan deildarinnar fyrir að halda úti góðum starfi fyrir börn og unglinga og mæta þeim mikla áhuga sem fyrir hendi er.
„Ef félagið eignast úrvalsdeildarlið í körfubolta og handbolta karla virðist ljóst að liðin fá ekki æfingar daginn fyrir deildarleik vegna þess svo dæmi sé tekið þá á meistaraflokkur karla ekki tíma í íþróttahúsi á miðvikudagskvöldi en Olís-deildin er yfirleitt leikin á fimmtudagskvöldi. Sömu sögu er að segja um körfuna sem æfir í litlum skólasal.“
Framkvæmdir geta hafist strax
Andrés segir mögulegt að leysa úr vanda Fjölnis en til þess skortir vilja meðal yfirvalda Reykjavíkurborgar. Andrés segir Regin, félagið sem á Egilshöllina, vera tilbúið til að hefja strax framkvæmdir við nýtt íþróttahús í tengslum við höllina. „Pólitískur vilji verður hinsvegar að fylgja þar sem um einkaframkvæmd er að ræða og áður en farið verður af stað vill fyrirtækið sem hyggst byggja húsið að því verði tryggðar greiðslur fyrir ákveðinn fjölda æfingatíma í nýja húsinu. Þörfin fyrir tímana er skýr miðað við fjölda iðkenda hjá Fjölni. Því miður þá hefur borgin ekki verið tilbúin að ganga frá slíkum samningi og reyndar menntamálaráðuneytið ekki heldur. Pólitískan vilja vantar,“ segir Andrés Gunnlaugsson, handknattleiksþjálfari hjá Fjölni.
Fjölnir
» Félagið er með meistaraflokk kvenna í úrvalsdeild í handbolta.
» Félagið er með meistaraflokk karla sem er í öðru sæti 1. deildar í handbolta.
» Félagið er með meistaraflokk karla sem er í öðru sæti 1. deildar í körfubolta.
» Félagið er með meistaraflokk kvenna í 1. deild en var í úrvalsdeild fyrir skömmu.
» Fjölnir er eitt af fjölmennustu íþróttafélögum landsins með öflugt barna- og unglingastarf og margar fleiri keppnisgreinar.