Reykvíkingar kusu 107 verkefni til framkvæmda í rafrænum íbúakosningum um Betri hverfi á síðasta ári. Nú er framkvæmdum við 74 þessara verkefna lokið.
Umhverfis- og skipulagssvið hefur skilað yfirliti yfir stöðu framkvæmda á verkefnum sem kosin voru rafrænu íbúakosningunum Betri hverfi 2015. Í janúar var framkvæmdum lokið við 74 verkefni sem íbúar kusu en 33 voru enn á framkvæmdastigi. Verður ráðist í að ljúka þeim verkefnum í vor eða um leið og veður leyfir.
Verkefnin sem framkvæmd hafa verið eru bæði stór og smá. Flest bæta þau útivistarmöguleika í hverfunum auk þess að gera umhverfið öruggara, skjólsælla og blómlegra.
Hér á eftir verður stiklað á stóru yfir helstu framkvæmdir í hverfunum en nákvæmt yfirlit er að finna aftast í fréttinni.
Í Árbæ hafa útivistarstígar austan Rauðavatns m.a. verið lagfærðir.
Í Breiðholti hefur aðstaða við tjörnina í Seljahverfi verið bætt með borðbekkjum og fleiru. Þá hafa ungbarnarólur verið settar á valda leikvelli í hverfinu. Gangstétt hefur lögð frá Stekkjarbakka og meðfram Olís Álfabakka. Einnig hefur nýr frisbígolfvöllur verið settur upp í dalnum fyrir neðan Ölduselsskóla.
Í Grafarholti og Úlfarsárdal hefur göngustígurinn ofan við Sæmundarskóla verið upplýstur og svæðið við Gvendargeisla 44 – 52 verið bætt með landmótun og frágangi svo eitthvað sé nefnt.
Í botni Grafarvogs hafa verið sett upp bekkjarborð og fleira á notalegum áningarstað. Þá hefur malarstígur verið lagður á hæðinni fyrir ofan Húsaskóla ásamt útsýnisskilti. Einnig hefur þjappað malaryfirborð verið sett á stíginn á milli Laufengis og Engjaborgar. Verið er að vinna að strandstíg við Gufuneshöfða. Stígnum er lokið en verklok eru áætluð í mars á þessu ári. Þá er rathlaupabraut á Gufunesi tilbúin.
Í Háaleitis- og Bústaðahverfi hafa tré verið gróðursett við Háaleitisbraut. Þá hefur gangsétt meðfram Háaleitisbraut, frá Lágmúla að Ármúla verið löguð auk þess sem valdir göngustígar í Fossvogi hafa verið lagfærðir.
Í Hlíðunum hefur gönguleið frá Litluhlíð upp að Perlu og Öskjuhlíð verið lagfærð. Búið er að setja lýsingu á göngustíginn á milli Gunnarsbrautar og Snorrabrautar. Þá er framkvæmdum lokið við boltaleikjaflöt á milli Grænuhlíðar og Hamrahlíðar og göngustígur hefur verið lagður frá Stigahlíð að Miklubraut til móts við Stigahlíð 2 – 4.
Á Kjalarnesi hefur verið hellulagt framan við borðsal í Fólkvangi og þjappaður malarstígur verið lagður frá skóla að íþróttavelli.
Í Laugardal hefur m.a. verið sett upp aðstaða í Laugardalslaug með köldu vatni til kælingar. Þá er framkvæmdum lokið við hringtorg við gatnamót Álfheima og Gnoðarvogs sem bætir flæði umferðar þar töluvert.
Í miðborginni hefur gönguleið verið gerð öruggari við gatnamót Þórsgötu og Njarðargötu en einnig hefur þrenging verið sett við norðaustur horn gatnamóta Vitastígs og Grettisgötu.
Í Vesturbæ hefur gangstétt verið lögð meðfram KR velli norðaustanmegin auk þess sem lagfæringar hafa verið gerðar á stígum við Eiðsgranda og Fjörugranda.