Barnasáttmálinn þrjátíu ára á þessu ári

Á þessu ári eru þrjátíu ár liðin frá því að Barnasáttmálinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember 1989. Þessum merka áfanga verður fagnað með ýmsu móti víða um heim enda hafa öll ríki heims, utan Bandaríkjanna, staðfest sáttmálann og er Barnasáttmálinn á þrjátíu ára afmælinu því orðinn útbreiddasti mannréttindasáttmáli í heiminum. Embætti umboðsmanns barna stendur á tímamótum við upphaf afmælisársins því á síðustu starfsdögum Alþingis fyrir jól voru samþykktar breytingar á lögum um embættið sem munu styrkja það verulega auk þess sem þingið hafði samþykkt auknar fjárveitingar til embættisins í fjárlögum stuttu áður.

Með breytingum á lögum um umboðsmann barna er kveðið skýrar á um hlutverk embættisins með sérstakri áherslu á réttindi barna, m.a. með vísun til Barnasáttmálans og fleiri alþjóðasamninga sem lúta að réttindum barna, eins og til dæmis samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Með samþykkt laganna hefur embættinu verið falið sérstakt hlutverk við að afla og miðla gögnum um stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni í samvinnu við ýmsa aðila. Þau gögn munu liggja til grundvallar samræmdri og markvissri stefnu í málefnum barna hjá stjórnvöldum. Þá hefur verið lögfest virkt samráð við börn en embættið hefur haft hóp barna sér til ráðgjafar um árabil. Loks er kveðið á um að umboðsmaður barna boði annað hvert ár til þings um málefni barna þar sem farið verði yfir stöðu og þróun í málefnum barna á helstu sviðum samfélagsins og þá verða niðurstöður þingsins kynntar ríkisstjórn og hlutaðeigandi ráðherrum. Fyrsta þingið um málefni barna – barnaþing – verður haldið í nóvembermánuði á þessu ári og verður án efa einn stærsti viðburður afmælisársins. Gera má ráð fyrir um 400-500 þátttakendum en í nýsamþykktum lögum er kveðið á um virka þátttöku barna í skipulagningu og framkvæmd þingsins og að börn verði meðal gesta og mælenda þess. Umboðsmanni barna er ekki kunnugt um að sambærilegt þing hafi verið haldið annars staðar þó ýmsar leiðir hafi verið farnar til að virkja þátttöku barna víða um heim.

Í umræðum þingmanna og nefndaráliti velferðarnefndar við afgreiðslu lagabreytinganna kom fram mikill einhugur meðal þingmanna um að styrkja embætti umboðsmanns barna og tryggja þannig börnum á Íslandi öflugan málsvara. Þá kom fram skýr vilji þingmanna um aukið samráð við börn í starfi þingsins og var fulltrúum úr ráðgjafarhópi barna við embættið boðið á fund velferðarnefndar til samráðs um fyrirhugaðar lagabreytingar. Í áliti velferðarnefndar við afgreiðslu frumvarpsins var sérstaklega fjallað um þær áherslur sem komu fram í samræðu við fulltrúa barna þar sem sagði »að Alþingi hefði reglulegt og raunverulegt samráð við börn þegar til umfjöllunar væru mál sem snerta hagsmuni þeirra. Sérstaklega var vísað til þess sem ungmennin komu á framfæri um að vefsíður og skjöl Alþingis væru ekki alltaf nógu aðgengileg, en jafnframt að styrkja þyrfti fræðslu til barna um lýðræðisþátttöku svo að þeim væri gert auðveldara að afla sér upplýsinga og hafa áhrif á framgang mála á Alþingi. Telur nefndin þetta mikilvæga þróun sem öflugra embætti umboðsmanns barna muni reynast traustur bandamaður í.« Álit velferðarnefndar og jákvæð afstaða þingmanna er mikilvægt veganesti fyrir embættið á næstu misserum en þar hefur á síðustu árum verið lögð áhersla á að stofnanir og sveitarfélög styrki samráð við börn með því að setja á laggirnar ráðgjafarhópa barna eða ungmennaráð.

Á þessu ári mun Ísland sitja fyrir svörum hjá Sameinuðu þjóðunum um framkvæmd Barnasáttmálans og viðbrögð stjórnvalda við lokaathugasemdum barnaréttarnefndarinnar frá árinu 2011. Meðal tilmæla nefndarinnar til íslenskra stjórnvalda var ábending um nauðsyn þess að þróa heildstætt kerfi um söfnun, vinnslu og greiningu gagna sem grundvöll árangursmats á framkvæmd réttinda þeirra sem Barnasáttmálinn tryggir börnum. Þá mæltist nefndin jafnframt til þess að tryggt verði að tillit verði tekið til sjónarmiða barna hjá öllum stofnunum sem aðkomu hafa að málefnum barna. Ljóst er að efling embættis umboðsmanns barna er mikilvægur liður í því að gera nauðsynlegar úrbætur í samræmi við athugasemdir og tilmæli Sameinuðu þjóðanna um framkvæmd Barnasáttmálans á Íslandi.

Ísland hefur sjaldan staðið betur efnahagslega en nú um stundir og án efa er betra að vera barn á Íslandi en víða annars staðar. Margt bendir þó til þess að þær þjóðfélagsbreytingar sem orðið hafa á síðustu áratugum hafi aukið verulega álag á börn. Sú kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi er í skipulagðri dagskrá nánast allan ársins hring, fyrst í leikskóla, síðan grunnskóla og loks framhaldsskóla og jafnframt hefur skóladögum ársins fjölgað. Þá sýna nýjustu tölur að um helmingur ungmenna á aldrinum 15-17 ára vinnur með skóla. Skjánotkun og samfélagsmiðlum fylgir meiri félagslegur þrýstingur en áður hefur þekkst sem skapar aukna félagslega samkeppni með tilheyrandi álagi og streitu. Það ætti því ekki að koma á óvart að vaxandi fjöldi barna glímir við kvíða og vanlíðan og lyfjanotkun barna hefur aukist verulega á síðustu árum.

Þessi staða barna er umhugsunarefni fyrir íslenskt samfélag sem allir verða að taka alvarlega. Stjórnvöld hafa sett málefni barna í forgang og einn liður í því er stofnun nýs ráðuneytis barnamála sem tók til starfa nú um áramótin. Það verður vonandi mikilvægt skref í átt að því að móta stofnanir samfélagsins út frá þörfum og hagsmunum barna ekki síður en fullorðinna og tryggja þannig réttindi allra barna á Íslandi.

Hérna eru fleiri Upplýsingar…..

og einnig hérna……..

 

 

 

 

 

 

Um höfundinn

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.