Dagana 4. – 7. febrúar verður haldin Vetrarhátíð um allt Höfuðborgarsvæðið. Boðið verður upp á fjölmarga skemmtilega viðburði á söfnum og í sundlaugum borgarinnar sem tilvalið er fyrir fjölskyldur að njóta saman. Höfuðborgarstofa hefur yfirumsjón með hátíðinni og og allir viðburðir eru ókeypis.
Fimmtudaginn 4. febrúar hefst hátíðin á opnunarkvöldi við Hörpu kl.19.30 þar sem glæsilegt gagnvirkt ljóslistaverk verður frumsýnt. Hægt verður að nota síma til þess að stjórna ljósunum, svo allir geta verið með. Í beinu framhaldi verður efnt til heljarinnar snjóbrettapartýs á Arnarhóli með tónlist og ljósum.
Föstudagskvöldið 5. febrúar er hin árlega Safnanótt. Frítt verður inn á öll helstu söfnin á höfuðborgarsvæðinu frá kl. 19.00 – 24.00. Áhersla verður lögð á fjölbreytta dagskrá og söfnin munu taka á sig nýja mynd. Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, börn, unglingar eða fullorðnir. Á milli safna gengur Safnastrætó sem er gjaldfrjáls. Ekki má gleyma hinum vinsæla safnanæturleik þar sem fjölmargir glæsilegir vinningar eru í boði.
Á laugardag 6. febrúar verður frítt í sundlaugar frá kl. 16.00 – 24.00. Hver sundlaug verður með sína dagskrá og margt spennandi i boði eins og zumba, flot, yoga, tónlist og ljósaverk.
Hátíðin endar svo sunnudaginn 7. febrúar á fjölskyldudegi í Bláfjöllum þar sem frítt verður í skíðalyftur fyrir 15 ára og yngri, auk afsláttar á skíðaleigu. Þar verður góð stemning og tónlist fyrir gesti fjallsins.
Allar upplýsingar og dagskrá má nálgast á heimasíðu Vetrarhátíðar – vetrarhatid.is