EM torgið verður fært yfir á Arnarhól þegar Ísland leikur á móti Englandi á mánudagskvöld kl. 19:00.
Vegna mikils áhuga þjóðarinnar á að horfa saman á þennan stórleik Íslands í 16-liða úrslitum Evrópukeppninnar var ákveðið, í samráði við Reykjavíkurborg, að setja upp risaskjá og hljóðkerfi við Arnarhól. Aðeins þessi leikur Íslands verður sýndur á Arnarhóli og verða aðrir leikir sem eftir eru í keppninni áfram sýndir á Ingólfstorgi.
Sviðið verður neðst í brekkunni við Lækjargötu og ættu því áhorfendur á Arnarhóli að sjá vel á skjáinn. Búist er við góðri mætingu enda tókst ekki öllum aðdáendum landsliðsins að tryggja sér miða á leikinn í Nice. Veðurspáin er hagstæð, fjöldi breskra ferðamanna er á landinu og áhugi Íslendinga á EM torginu hefur þegar farið fram úr björtustu vonum.
Reykjavíkurborg í samstarfi við aðstandendur EM-torgsins; Íslenska Getspá, Landsbankann, Icelandair, Coca-Cola, KSÍ, N1, Símann og Borgun vinna að þessari breytingu. Vonast er til að sem flestir mæti og sendi góða strauma til strákanna okkar í Nice.
Lækjargata verður lokuð frá morgni til kvölds næstkomandi mánudag en það verður nánar auglýst síðar.