Lionsklúbburinn Fjörgyn í Grafarvogi leggur ríka áherslu á að beita sér fyrir bættri heilsu barna og unglinga. Frá stofnun klúbbsins hafa helstu verkefni klúbbsins tengst stuðningi við Barnaspítala Hringsins og Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL). Með aðstoð fyrirtækja og einstaklinga hefur Fjörgyn getað fjármagnað kaup á magvíslegum lækningatækjum fyrir Barnaspítalann og leikföng fyrir skjólstæðinga spítalans. Frá árinu 2002 hefur Lionsklúbburinn Fjörgyn svo staðið fyrir stórtónleikum í Grafarvogskirkju til styrktar BUGL og líknarsjóði Fjörgynjar.
Á næstunni verða stórtónleikar Fjörgynjar haldnir í Grafarvogskirkju í fjórtánda sinn. Frá upphafi hefur Fjörgyn notið mikils velvilja hjá „landsliði” tónlistarfólks og í hvert sinn vilja fleiri taka þátt en komast að á einni kvöldstund. Tónleikarnir eru vinsælir og hafa hlotið fastan sess hjá mörgum fjölskyldum, því á efnisskrá tónleikanna er ætíð góð blanda klassískrar tónlistar, popptónlistar, einsöngs, kóra og hljómsveita, sem fólk á ólíkum aldri getur notið í aðdraganda aðventunnar. Tekjur af tónleikunum munu veita klúbbnum tækifæri til að halda áfram stuðningi sínum við BUGL. Einnig við önnur mikilvæg mannúðarverkefni, svo sem stuðning við bágstaddar fjölskyldur en á hverju ári sendir Fjörgyn matargjafir til um 50 heimila í Grafarvogi og Grafarholti í tilefni jólanna. Þetta er gert í góðu samstarfi við Grafarvogskirkju og fyrirtæki á matvörumarkaði.