Sjómannadagurinn 7. Júní 2015 – Kveðjumessa Lenu Rósar Matthíasdóttur í Grafarvogskirkju

Höfðu þessir lærisveinar aldrei migið í saltan sjó?

Ég veit ekki hvað ykkur datt í hug þegar þið heyrðuð guðspjallið lesið hér áðan. Kannski einhver ykkar hafi af vorkunsemi látið hugann reika til Jesú. Hann hafði jú gengið langar vegalengdir, mætt mörgu fólki, predikað og kennt, læknað og hlustað hvar sem fólk á vegi hans varð og mátti að auki þola aðfinnslur og aðkast þeirra sem vildu hann burt. Hann var úrvinda af þreytu. Kannski datt ykkur í hug að það hefði nú verið yndælt að geta boðið honum heim, í uppábúið rúm, í mjúkar amerískar springdýnur og færa honum ristað brauð og djús, horfa á hann sporðrenna því á meðan þið nuddið á honum fæturnar.

Kannski hvarflaði hugur ykkar meira í áttina að lærisveinunum, að hugleysi þeirra eða trúmennsku. Þeir voru jú trúfastir vinir, hvort tveggja í senn námsmenn hjá Jesú og samstarfsmenn í hreyfingu hans. Þeir gerðu sitt gagn í þjónustunni og komu honum undan fjöldanum og út í bátinn með álíka fumlausum hætti og lífverðir Kim Kardashian hefðu gert. En þeir urðu líka hræddir um að báturinn myndi farast.

Kannski var það eitthvað allt annað sem þú hugsaðir, mundirðu kannski skyndilega eftir ferðinni með gamla Herjólfi hér um árið í bandbrjáluðu veðri, þegar þú ætlaðir að æla út fyrir borðstokkinn en fékkst allt á skóna? – Já, þær geta verið svo ótalmargar myndirnar sem birtast okkur þegar við lesum þetta litla en ríkulega myndræna guðspjall um Jesú og storminn. Sjálf varð ég hugsi yfir viðbrögðum lærisveinanna og óttanum sem birtist í orðum þeirra. Það er engu líkara en þessir menn hafi aldrei migið í saltan sjó. Þeir virðast missa tökin, hætta að stóla á sjálfa sig og sína kunnáttu en varpa ábirgðinni allri yfir á sofandi manninn. Mér finnst það alltaf jafn skrítið, þegar ég hugsa um það, sumir þeirra voru nefnilega vanir fiskimenn áður en þeir gengu til liðs við Jesú. Voru þeir strax búnir að gleyma því hvernig þeir ættu að bera sig að?

Því ef þú hefur alist upp við útgerð, eða stundað sjósókn, þá veistu að lífið snýst um bátinn, veðrið og fiskinn. Þú andar að þér hafinu og þekkir það eins og lófann þinn. Umræðan við matarborðið er umræða um afla dagsins, um hrefnuna sem sinnti óvenju nálægt, um selinn sem reif netin. Verðið á kílóinu, bilaða kranann á bryggjunni og um það hvernig við matreiðum lostætið sem borið var heim í hús þann daginn. Þú lest veðrið úr tunglinu, skýjunum, sjólaginu, háttarlagi dýra og fugla. Án afláts andarðu að þér sjónum og getur ekki annað. Hann er lífið þitt. Allt þetta í milli þess sem greint er frá skóladeginum, prakkarastrikunum eða sögunum sem við heyrðum út í búð í gær. Fjölskyldusagan og fiskisagan fléttast saman í eina litríka frásögn sem fjallar um sorgir og sigra í rammsöltum hversdeginum.

Ég var svo heppin að fá að fá að kynnast þessari hlið íslenskrar alþýðumenningu og upplifði það á eigin skinni að standa af mér ölduna með pabba úti á sjó. Þá hafði ég frá blautu barnsbeini unnið mig upp í landvinnslunni úr því að moka salti í það að fella netin með mömmu og fannst ég stór þegar ég fékk að hausa í fyrsta sinn. Já, það var sko fullorðins að handhausa þorsk. En það ekki fyrr en ég fékk að prufa að vera á handfærum með pabba, og ég upplifði á einu augabragði að breytast úr töffara í ákaflega hjartasmáa og huglausa mús, að ég vissi hvað var að vera fullorðinn.

Við höfðum verið á skaki við mynni Héðinsfjarðar þegar stormviðrið skall á með slíkum hvelli að illilega varð stætt um borð. Aldrei hafði ég upplifað svona sjó fyrr og hafði ekki heldur ímyndunarafl til að skilja hvernig smábátur mögulega gæti haldið stefnu í slíku róti. Ég fór eitthvað að væla og pabbi skipaði mér niður í lúkar og sagði mér að halda þar til þangað til við kæmum inn fyrir fjarðarkjaftinn í Ólafsfirði. Ég gleymi því seint hve hrædd ég var um pabba. Það var svo skrítið að ég hugsaði ekkert um eigin afdrif, en gerði mig þeim mun uppteknari af hugmyndum um það hvað myndi gerast ef pabbi drukknaði. Hvernig mömmu myndi reiða af, hverju pabbi myndi missa af og hversu sárt systur mínar myndu gráta hann. Það var akkúrat þá sem ég áttaði mig á að ég var að verða fullorðin. Því kannski er það ekki fyrr en maður stendur frammi fyrir örlögum ástvina að maður áttar sig á því í hverju það felst að vera fullorðinn. Allt í einu skildi ég setninguna hafið gefur og hafið tekur og fanst ég hafa upplifað mikla hetjudáð að hafa hætt að væla og látið mig hafa það að hýrast í lúkarnum gegnum allan veltinginn.

Þegar ég svo les guðspjall dagsins þá skynja ég þennan sama ótta hjá lærisveinunum. Óttann sem vaknar vegna þeirra sem maður elskar mest. Var það kannski þannig ótti sem rak þá til að vekja meistarann. Ekki að þeir hafi verið svo hræddir um sjálfa sig, heldur um hann. Þeir voru jú þarna hans vegna. Setningin: ,,Við förumst“ felur þá í sér sorgina yfir því að möguleikar hans sem þeir elskuðu mest yrðu að engu. Var það ekki kannski einmitt kærleikur og hetjudáð sem stýrði þeim í að öskra á hann ,,Ræs“? Ef ég gef mér það og leyfi mér síðan að taka hugsunina aðeins lengra og spyrja sjálfa mig, hvað ef báturinn væri íslenskt samfélag í dag, hvað ef hinn sofandi leiðtogi væri ríkisstjórnin okkar og lærisveinarnir værum ég og þú. Þá finn ég um leið að það er einmitt þessi sami ótti sem gerir að verkum að almenningur hrópar af öllum kröftum á tvísýnum tímum? Kærleikur og hetjudáð og ábyrgðartilfinning gagnvart þeim sem við elskum mest eru drifkrafturinn sem knýr okkur til að hrópa frá öllum þessum útifundum, bloggsíðum, net- og fjölmiðlum.

En óánægjan verður ekki til í tómarúmi. Lág laun og veik staða velferðarkerfisins eru sennilega þeir þættir sem valda mestri óánægju á Íslandi í dag. Möguleikar unga fólksins okkar að koma sér þaki yfir höfuðið eru hverfandi. Leigumarkaðurinn löngu sprunginn og leiguverð svo hátt að flestum reynist erfitt að leggja til hliðar og safna til íbúðarkaupa.   Þessi sama óánægja með bág kjör og erfiða lífsafmkomu hefur orðið allt of mörgum fjölskyldum hvati til þess að yfirgefa landið.

– ,,Er það nema von, segir Jón Steinsson, hagfræðingur við Columbia háskóla, að fólk sé óánægt þegar þjóðin lætur það yfir sig ganga, ár eftir ár, að veiðiheimildum sé úthlutað til útgerðanna langt undir sannvirði. Laun gætu verið hér mun hærri og velferðarkerfið mun betur sett ef þjóðin fengi að njóta arðsins af þeim auðlindum sem hún á. Nú vill ríkisstjórnin taka stórt skref í þá átt að festa þetta kerfi enn frekar í sessi. Þess vegna er tími til kominn að landsmenn segi hingað og ekki lengra og leggi sitt lóð á vogarskálarnar til að sópa burt úr sjávarútvegi okkar þeirri spillingu sem þar ríkir. Því það er spilling að leigja makrílkvóta með 80 % afslætti. Kvótann á að bjóða upp svo að þjóðin fái markaðsverð fyrir veiðiheimildirnar“. (Tilvitnun lýkur)

Við getum flest verið sammála hinum unga hagfræðingi um að Fiskveiðiauðlindin sé og eigi áfram að vera þjóðareign. Við getum örugglega líka flest verið sammála um það að sá arður sem af þjóðareigninni skapast ætti að nýtast til að byggja upp gott velferðarsamfélag. Sú hugmynd ætti alls ekki að þurfa að vera skoðun nokkurra einstaklinga sem á samfélagsmiðlum fá útrás fyrir vanþóknun sína og reiði, heldur er um að ræða réttlætismál og baráttumál okkar allra, algerlega óháð því hvort við höfum nokkurn tíma migið í saltan sjó eða ekki. Því í reynd fjallar stóra makrílfrumvarpið um afkomumöguleika komandi kynslóða hér á landi. Frumvarp ríkisstjórnarinnar um kvótasetningu á makríl er eiginlega sniðið til þess að ala á sundurlyndi og ójöfnuði og fer beinlínis gegn niðurstöðu Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem á sínum tíma sagði misbrest hafa verið á því, að gætt hafi verið sanngirni (við upptöku kvótakerfisins) þegar tímabundnar aflaheimildir breyttust í varanlegar aflaheimildir. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna komst sumsé að því að þáverandi yfirvöld hefðu beitt þegna landsins óréttlæti. Það er alvarlegt mál að ríkisstjórn lands skuli fá á sig þann dóm að vinna gegn heill landsmanna. Maður skyldi því ætla að þær ríkisstjórnir sem á eftir komu hefðu reynt að bæta fyrir vitleysuna, en sú hefur ekki enn orðið raunin. Og það sem meira er, með þessu nýjasta frumvarpi virðir ríksstjórn Íslands að vettugi varnaðarorð Mannréttindadómstólsins og gengur enn lengra í vitleysunni með því að reyna að festa óréttlætið enn frekar í sessi, fjöldanum til óheilla og örfáum til sigurs.

Jesús sofnaði í bátnum, hann virtist vera algerlega sultuslakur þegar hann vaknaði, líkt og honum væri alveg sama um hætturnar allt um kring. En þrátt fyrir það þá hlustaði hann á lærisveina sína. Hann virtist reyndar stórmóðgaður yfir því að þeir skyldu halda að báturinn myndi farast. Enda leit hann aldrei á sig sem venjulegan mann og birtist heldur ekki fólki sem venjulegur maður. Vinir hans upplifðu Guð tala í gegnum hann og fundu hvernig hann öruggur hvíldi í varðveislu Guðs hvort sem var í logni eða stormviðri lífsins. Við getum lært margt af honum þar og lagt okkur fram um að hvíla í Guði jafnvel þótt pólitískt stormviðri skeki tilveru okkar. En takið eftir því að jafnvel þótt Jesús væri sultuslakur og undrandi á viðbrögðum lærisveinanna, þá hlustaði hann á þá og á rökin þeirra og kom til móts við þarfir þeirra. Hann lægði vindinn svo þeim liði vel.

Landinu okkar er auðvelt að líkja báti sem sem siglir hægt en örugglega um heimsins höf, í logni sem stormi og stundum í stórkostlega úfnum sæ. Ekki allir þola álagið frá öldurótinu, og líkt og tölur frá hagstofu sýna eru alltf of margir íslendingar farnir frá borði vegna stormviðrisins undanfarin misseri. Hinir sem eftir standa hrópa á yfirvöld að vakna. – En það er nýtt fyrir mér að nota bátinn sem líkingu fyrir landið, því alla tíð hef ég litið á hann sem líkingu fyrir kirkjuna. Ég sé hana eins og risastóra galeiðu og finnst ég vera heppin að hafa fengið að grípa í árina hér í Grafarvoginum frá ársbyrjun 2004 til ársloka 2014. Hér hef ég séð margar góðar hendur munda árar. Allir hafa þessir dyggu þjónar lagt sitt lóð á vogarskálarnar, hvert á sínum hraða á sínum tíma, stigið um borð og aftur frá borði. Og áfram siglir fleyið. Stundum gat virkilega gefið á bátinn og það kom fyrir að ég hrópaði á meistarann, hvort hann væri ekki örugglega vakandi. En þegar ég lít yfir tímann minn hér sé ég að lengst af fylgdi okkur blíður blær og lygn sjór.

Ég sagði einhvern tíma frá því í blaðaviðtali hversu hissa ég væri á því að mörgum árum eftir vígslu hlakkaði enn í mér þegar ég stingi lyklinum í skráargatið á skrifstofunni minni að morgni dags. Ég upplifði raunverulegan unaðshroll yfir því að mega þjóna hér, fá að vera ein af árunum um borð. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát. En nú hef ég tekið við nýrri ár í nýju landi og þarf að læra annan takt, pínulítið öðruvísi áralag og finn að það gerir mig hæfari ræðara um borð í þessari sömu risastóru galeiðu sem hin kristna kirkja er. En hvort sem við finnum okkur við árina í kirkjuskipinu eða ríkisgaleiðunni, skulum við hvert og eitt reyna að bæta áralagið og skipta máli. Ég finn það með mig, að þótt ég sé farin er ég hvergi nærri hætt að róa á íslandsmiðum. Ég finn æ meiri þörf fyrir að staðsetja mig með þeim sem hrópa hæst á sofandi leiðtoga. Bara að þeir skynji að þar fara lærisveinar sem af kærleika og umhyggju fyrir landi og þjóð, hrópa fullum hálsi ,,RÆS… við förumst!“.

Kæru grafarvogsbúar! Af hjartans auðmýkt þakka ég samfylgdina og bið ykkur öllum Guðs blessunar!

Gleðilegan sjómannadag!

 

[su_button url=“https://www.facebook.com/media/set/?set=a.347978168710681.1073741867.111119802396520&type=1″]Myndir frá athöfninni….[/su_button]

 

 

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.