Ein ánægjulegasta breytingin í fjárhagsáætlun borgarinnar 2017 er hækkun frístundakortsins upp í 50.000 krónur. Nú hefur það verið í 35.000 kr undanfarin tvö ár en hækkar um næstu áramót.
Frístundakortið er mjög mikilvægt til að gera öllum kleift að stunda íþróttir eða aðrar tómstundir enda getur verið ansi dýrt að læra á hljóðfæri eða æfa íþróttir, jafnvel þótt það sé bara ein íþróttagrein.
Kortið er ótrúlega mikið notað af krökkunum í borginni og fjölskyldum þeirra en ég vona að við getum fengið enn fleiri til að nota frístundakortið og munum við fara í sérstakt kynningarátak á völdum stöðum í borginni þar sem notkun á kortinu er minni en annarstaðar.