Grafarvogsdagurinn verður haldinn hátíðlegur í 18. sinn og fer hann að þessu sinni fram laugardaginn 30. maí. Vefurinn Grafarvogsbúar.is hitti Guðmund Pálsson, verkefnastjóra dagsins, og ræddi við hann um verkefnið.
Menning og mannauður í forgrunni
„Markmið dagsins er fyrst og fremst að sameina íbúa hverfisins og skapa þeim tækifæri og vettvang til að hittast og skemmta sér og öðrum“ segir Guðmundur. „Hér í hverfinu er öflugt félags- og menningarstarf og Grafarvogsdagurinn er frábært tækifæri til að draga fram þann mikla mannauð sem í því starfi býr. Það verður því stór þáttur í mínu starfi að ná sambandi og tengslum við fólk og félög og fá þau til samstarfs og skapa vettvang fyrir þá aðila til að láta ljós sitt skína“ bætir Guðmundur við.
Öflug aðkoma fyrirtækja og stofnanana
Að sögn Guðmundar hafa fyrirtæki og stofnanir lagt deginum lið í gegnum tíðina með margvíslegum hætti. „Starfsemi fyrirtækja og stofnana hér í hverfinu er að sjálfsögðu hluti af samfélaginu sem hér blómstrar og því mikilvægt að þessir aðilar taki einnig virkan þátt í hátíðarhöldunum. Stuðningur við einstök dagskráratriði, kynning á starfsemi, vörum og þjónustu eru allt mögulegar leiðir fyrir fyrirtæki og stofnanir til að hafa virka og beina aðkomu. Ég vona að okkur takist að eiga öflugt samstarf við alla þessa aðila og að þeir nálgist verkefnið þannig að þetta sé sameiginlegur vettvangur sem búa og starfa í hverfinu“ segir Guðmundur.
Fréttir af undirbúningi
„Ég tók þetta verkefni að mér fyrir nokkrum dögum síðan og hef notað tímann vel til að kynna mér hvernig þetta hefur farið fram á undanförnum árum. Næstu skref eru svo að hafa samband við félög, fyrirtæki og stofnanir og leita samstarfs“ segir Guðmundur og bætir við að hann sé bjartsýnn og að mikill áhugi sé hjá þeim sem hann hefur þegar verið í sambandi við.
Útfærslan í mótun
„Nákvæm útfærsla á dagskrá liggur ekki fyrir en hún skýrist betur þegar fyrir liggja nánari upplýsingar um aðkomu aðila að verkefninu. Ég sé þó fyrir mér að með því að virkja sem flesta til þátttöku náum við að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá á fjölmörgum stöðum í Grafarvoginum og að fólk verði á faraldsfæti og líti við sem víðast“. Guðmundir nefnir að dagurinn muni svo að líkindum ná hápunkti með sameiginlegri dagskrá við Spöngina.
Hver er maðurinn?
„Ég hef fjölbreyttan bakgrunn í margvíslegri verkefna- og viðburðarstjórnun og hef verið virkur í skátastarfinu alla tíð og sæki þangað mest af minni reynslu af undirbúningi og skipulagningu viðburða af þessu tagi“. Guðmundur leggur stund á meistaranám í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. „Það má segja að þetta verkefni falli eins og flís við rass við þau viðfangsefni sem ég er að takast á við í náminu sem snýst að stórum hluta um miðlun menningar með margvíslegum hætti og í sínu víðasta samhengi“ segir Guðmundur að lokum.
Áhugasamir hafi samband sem fyrst!
„Ég hvet alla þá sem hafa áhuga á að taka þátt í deginum með einhverskonar dagskrá, kynningu, opnu húsi eða samstarfi og stuðningi af hvaða tagi sem er, að hafa samband sem allra fyrst. Best er að senda mér línu á netfangið gudmundur.palsson@reykjavik.is eða slá á þráðinn í síma 692 6733“ segir Guðmundur og stekkur af stað enda í mörg horn að líta í þessu viðamikla verkefni.
/Baldvin Örn Berndsen