Á haustdögum 2015 var undirritaður þjóðarsáttmáli um læsi og voru það fulltrúar allra 74 sveitarfélaga landsins ásamt mennta- og menningarmálaráðherra og fulltrúum Heimilis og skóla sem undirrituðu sáttmálann. Markmið þjóðarsáttmálans er að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns og er verkefnið hluti af aðgerðaáætlun sem unnin var í kjölfar Hvítbókar mennta- og menningarmálaráðherra um umbætur í menntun.
Ekki er litið á þjóðarsáttmálann sem tímabundið átak heldur er markmiðið að byggja sterkan grunn fyrir umbætur í menntakerfinu þannig að nemendur njóti góðs af. Með undirritun sáttmálans staðfesta aðilar hans sameiginlegan skilning á mikilvægi læsis til virkrar þátttöku í samfélaginu þannig að hver og einn geti nýtt hæfileika sína samfélaginu öllu til velferðar.
Læsissáttmáli Heimilis og skólaFulltrúar Heimilis og skóla eru aðilar að þjóðarsáttmála fyrir hönd foreldra en mikilvægt er að allir taki höndum saman til að efla læsi barna í landinu.
Samtökin gerðu samning við mennta- og menningarmálaráðuneyti í janúar 2016 um að útbúa Læsissáttmála fyrir foreldra.
Meginmarkmið samkomulags ráðuneytisins og Heimilis og skóla eru að stuðla að aukinni lestrarfærni barna og unglinga með þátttöku og stuðningi foreldra við framkvæmd þjóðarsáttmála um læsi. Útbúa Læsissáttmála fyrir foreldra og kennara og innleiða hann í skóla landsins.Auka vitund foreldra um ábyrgð þeirra gagnvart læsi barna sinna.
Virkja foreldra í að styðja við læsi og lestrarþjálfun barna sinna.Auka samstarf skóla og foreldra um læsisnám barna. Við undirbúning Læsissáttmála var settur saman rýnihópur fagfólks sem kom m.a. frá Kennarasambandi Íslands, Menntavísindasviði Háskóla Íslands, menntasviði Reykjavíkurborgar, Menntamálastofnun o.fl. sem unnu að gerð sáttmálans ásamt starfsfólki Heimilis og skóla. Einnig var hann sendur víðar til yfirlestrar og var því haft um hann víðtækt samráð.
Fjölbreytt efniSáttmálanum fylgir fjölbreytt efni en auk veggspjalds, leiðbeininga og ítarefnis er hægt að fá kynningarbækling, lestrarhefti til að kvitta í fyrir upplestur, bókamerki og ísskápssegla. Verkefnastjórar Heimilis og skóla eru um þessar mundir á ferð um landið í þeim tilgangi að kynna Læsissáttmálann og fræða um mikilvægi foreldra þegar kemur að læsi og lestrarþjálfun barna.
Haldnir verða hátt í 50 kynningarfundir víðs vegar um land á árinu og er það von okkar að sem flestir sjái sér fært að nýta þá og fræðast um lestur og læsi. Í boði eru gagnlegar upplýsingar, ábendingar og efni sem nýtist foreldrum og kennurum. Einnig er hægt að panta efnið hjá Heimili og skóla eða sækja það á heimasíðu okkar, heimiliogskoli.is, og leggja fyrir bekkjarforeldra.
Við getum náð árangri saman. Með innleiðingu Læsissáttmála er höfðað til samtakamáttar og samábyrgðar foreldra. Sáttmálanum svipar til Foreldrasáttmála Heimilis og skóla sem notið hefur mikilla vinsælda. Læsissáttmálinn inniheldur sex atriði um lestur og læsi sem rædd eru á fundi bekkjarforeldra með umsjónarkennara. Á fundinum er ítarefni dreift til foreldra þar sem farið er nánar í hvert atriði.
Þegar umræður hafa farið fram og foreldrar borið saman bækur sínar um hvað þeim finnst mikilvægt í þessu samhengi er sáttmálinn undirritaður og hengdur upp, yfirleitt í skólastofu barnanna.
Heimili og skóli
>> Gott læsi er grunnur alls náms og forsenda virkrar þátttöku í lýðræðissamfélagi. Heimili og skóli hafa nú gefið út Læsissáttmála fyrir foreldra.