Í menningarstefnu Reykjavíkurborgar gegna börn og menningaruppeldi mikilvægu hlutverki. Þar er lögð áhersla á að menning og listir séu snar þáttur í uppeldi og kennslu barna og ungmenna í borginni. Ekki síður er lögð áhersla á þátttöku barna, ungmenna og fjölskyldna í menningarlífinu og að framlag þeirra til menningar sé metið að verðleikum.
Á Barnamenningarhátíð í Reykjavík má upplifa þessi markmið í verki. Þessi skemmtilega hátíð er nú haldin í fimmta sinn og hefst hún þriðjudaginn 21. apríl og stendur til sunnudagsins 26. apríl.
Í þessari viku fá öll börn í leikskólum og grunnskólum Reykjavíkur sendan heim bækling með upplýsingum og dagskrá hátíðarinnar. Um 120 viðburðir verða á hátíðinni í ár og fara þeir fram víðsvegar um Reykjavík. Gæði, fjölbreytni, jafnræði og gott aðgengi eru höfð að leiðarljósi við skipulagningu hátíðarinnar sem rúmar allar listgreinar. Allir viðburðir á Barnamenningahátíð eru ókeypis.
Hátíðin er fyrir börn og unglinga allt frá tveggja ára til 16 ára. Það eru því fjölbreyttir viðburðir í boði sem höfða til ólíkra hópa á þessu aldursbili.
Á Barnamenningarhátíð gefst kærkomið tækifæri fyrir börn og foreldra að njóta samveru og skemmtunar. Hægt er að kynna sér nánar dagskrá hátíðarinnar á www.barnamenningarhatid.is Gleðilega Barnamenningarhátíð!
F.h. stjórnar Barnamenningarhátíðar í Reykjavík og skipuleggjenda hátíðarinnar á Höfuðborgarstofu í náinni samvinnu við skóla- og frístundasvið.
Signý Pálsdóttir,
skrifstofustjóri menningarmála á Menningar- og ferðamálasviði.