Reykjavíkurborg hefur auglýst eftir þátttakendum í forval fyrir lokaða hugmyndasamkeppni um skipulag Gufunessvæðisins í Grafarvogi.
Hugmyndasamkeppnin er haldin í samstarfi við Félag Íslenskra Landslagsarkitekta. Markmiðið með henni er að kalla eftir hugmyndum að skipulagi og hönnun, í samræmi við meginstefnu Aðalskipulags Reykjavíkur 2010 – 2030. Skipulag svæðisins hefur lengi verið órætt og miklar umræður hafa verið um framtíðarþróun þess.
Á byggingarsvæðum er gert er ráð fyrir starfsemi sem almennt fellur undir skilgreiningu athafna- og iðnaðarsvæða. Iðnaðarstarfsemi á svæðinu er víkjandi en gert er ráð fyrir blandaðri byggð íbúða og þrifalegri atvinnustarfsemi á svæðinu í framtíðinni. Þátttakendum er ætlað að koma með áhugaverðar og spennandi tillögur um blandaða byggð sem innifela í sér skrifstofur, íbúðir og þjónustu ásamt opnum almenningsrýmum og góðum samgöngum. Þeim er einnig uppálagt að skoða möguleikana og að nýta sóknarfærin sem myndast með öflugu kvikmyndaveri á svæðinu.
Lokamarkmiðið er að Gufunessvæðið fái fallegt heildaryfirbragð og geti þróast og öðlast framtíðarhlutverk sem stuðlar að fjölbreyttri notkun þess.
Svæðið er í heild um 1,3 ferkílómetrar að stærð. Undir það falla m.a. Gufunesbærinn, lóð Áburðarverksmiðjunnar að Geldinganesi og Hallsteinsgarður. Nokkur uppbygging hefur átt sér stað sl. ár í eldri byggingum en ótal möguleikar eru til aukinnar eða breyttrar nýtingar í framtíðinni. Í dag eru margir ólíkir hagsmunaaðilar á svæðinu en allar byggingar eru í eigu Reykjavíkurborgar.
Leiðarljós samkeppninnar eru eftirfarandi:
- Samfélag: Að skapa heildstæðar einingar sem fjarlægja hindranir og hvetja til jákvæðra samskipta á milli mismunandi aldurs- og þjóðfélagshópa.
- Gæði byggðar: Að skipulag byggðar myndi umgjörð um lifandi og aðlaðandi staði sem ýti undir aukin og gagnkvæm samskipti fólks og umhverfis.
- Samgöngur: Að verslun og þjónusta sé í göngufjarlægð frá öllum íbúum viðkomandi skipulagssvæðis. Gangandi og hjólandi umferð ásamt almenningssamgöngum verði sett í forgang.
- Vistkerfi og minjar: Að tryggja náttúrulegan fjölbreytileika lands, lífríkis, og menningarminja með markvissri verndun og viðhaldi.
- Orka og auðlindir: Stuðla skal að sjálfbærari nýtingu orku og auðlinda svo sem vatns, rafmagns og lands. Auka kolefnisbindingu með gróðri og hlutdeild endurvinnslu með markvissri úrgangsstjórnun.
- Mannvirki: Að taka tilliti til framþróunar í vistvænni byggingartækni og mannvirkjagerð sem verði skilyrtur hluti af framkvæmda- og byggingarskilmálum.
- Náttúruvá: Gera viðeigandi ráðstafanir og marka stefnu til að lágmarka hættu af völdum loftslagsbreytinga á lágsvæðum.
- Lýðheilsa: Að svæðið komi til móts við og ýti undir afþreyingu, útivist og hreyfingu almennings á sem fjölbreyttastan hátt allan ársins hring og ýti undir menningarstarfsemi.
Allar nánari upplýsingar er að finna hér: