Grafarvogsdagurinn var haldinn hátíðlegur í 19. skiptið laugardaginn 28. maí síðastliðin.
Mikið var um dýrðir og var dagskrá fjölbreytt og dreifðist hún víðs vegar um hverfið. Eitt af helstu markmiðum hátíðahaldanna er að bjóða Grafarvogsbúum upp á fjölbreytta skemmtidagskrá þar sem allir hverfisbúar geta fundið eitthvað við sitt hæfi ásamt því að skapa fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum í hverfinu vettvang til þess að kynna sig og mynda sterka tenginu við menningarstarf hverfisins.
Fjöldi einstaklinga, fyrirtækja, félagasamtaka og stofnanna í hverfinu lögðu hönd á plóg við framkvæmd þessa viðburðar og má með sanni segja að uppskeran hafi verið frábær skemmtun fyrir alla Grafarvogsbúa. Veðurguðirnir komu deginum til bjargar á síðustu stundu, en spáð hafði verið rigningu sem Grafarvogurinn slapp að mestu leyti við.
Í dagskránni í ár voru nokkrir viðburðir sem telja má til fastra liða á Grafarvogsdeginum, t.d. Grunnskólahlaupið við Gufunesbæ, fjölskyldudagskrá hjá Íslenska Gámafélaginu, fjölbreytt skemmtidagskrá í Egilshöll og skottmarkaðurinn við Spöngina. Það voru hins vegar margir nýir viðburðir í ár á borð við afmælisdagskrá hjá Krumma, fjölskyldudagskrá hjá Sorpu, og síðast en ekki síst unglingatónleikar á Korpúlfsstöðum.
Á Korpúlfsstöðum var máttarstólpinn, hvatningaverðlaun Hverfisráðs Grafarvogs einnig afhentur en að þessu sinni var það Gellerí Korpúlfsstaðir sem hlutu viðurkenninguna fyrir framúrskarandi starf í þágu menningar og lista í Grafarvogi. Þess má til gamans geta að Galleríið hélt upp á 5 ára starfsafmælið sitt föstudaginn 27. maí 2016.