Hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs vegna grunnskólastarfs voru afhent á árlegri fagstefnu grunnskólakennara í dag, Öskudagsráðstefnunni, þar sem 600 kennarar settust á rökstóla um nemendamiðað skólastarf.
Hvatningarverðlaunin fengu þrír grunnskólar fyrir framsækið fagstarf; Hagaskóli, Klébergsskóli og Rimaskóli. Þá fengu Breiðholtsskóli, Laugarnesskóli og Vogaskóli sérstaka viðurkenningu.
Hagaskóli fékk hvatningarverðlaunin fyrir verkefnið Barnasögur í leikskóla en í því vinna nemendur í 10. bekk að því að semja og myndskreyta barnasögur fyrir leikskólabörn. Markmiðið með þessu skemmtilega verkefni sem hófst fyrir fjórum árum er að hvetja nemendur í 10. bekk til ritunar og auka samstarf unglinga og leikskólabarna í hverfinu.
Klébergsskóli hlaut hvatningarverðlaunin fyrir verkefnið Nýtt námsmat í anda nýrrar aðalnámskrár. Þrír kennarar við skólann þróuðu nýtt námsmat og færðu það úr tölum yfir í matskvarða í orðum og með táknunum rauður, gulur, grænn. Í umsögn dómnefndar um það þróunarstarf segir m.a.: „ Hér er á ferðinni framtak og frumkvæði lítils kennarahóps í litlum skóla til að innleiða hæfniviðmið og matsviðmið aðalnámskrár grunnskóla á einfaldan og skýran hátt fyrir nemendur, kennara og foreldra. Allir nemendur á unglingastigi fá upplýsingar um hvar þeir eru staddir í námsferlinu og vita þá að hverju er að stefna. Þessi skýra útfærsla skólans hefur vakið athygli Menntamálastofnunar sem valdi það sem eitt af þremur námsmatsverkefnum til að kynna sérstaklega fyrir öðrum skólum.“
Rimaskóli fékk hvatningarverðlaunin fyrir verkefnið Leið þín um lífið, valáfanga fyrir nemendur í 8. – 10. bekk sem Anna Kristín Jörundsdóttir lífsleiknikennari setti saman. Markmið hans er að byggja upp sjálfstraust, samskiptahæfni og núvitund nemenda og stuðla að aukinni vellíðan þeirra, þannig að þeir geti betur tekist á við sitt daglega líf á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.
Sérstaka viðurkenningu fengu þrír skólar fyrir áhugaverð verkefni;
Laugarnesskóli fyrir verkefnið Viltu verða drekameistari? en í því er lesturinn gerður að ævintýri. Vignir Ljósálfur Jónsson kennari á skólasafni hafði frumkvæði og umsjón með verkefninu.
Vogaskóli fyrir verkefnið Endurvinnsla og sköpun sem Guðrún Gísladóttir myndmenntakennari skipulagði.
Breiðholtsskóli og leikskólarnir Borg og Bakkaborg fengu svo viðurkenningu fyrir samstarf sitt um Fjölmenningarhátíð í Neðra Breiðholti.
Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs og Eva Einarsdóttir formaður dómnefndar afhentu hvatningarverðlaunin við líflega athöfn á Öskudagsráðstefnunni þar sem nemendamiðað skólastarf var í brennidepli.