Foldaskóli er elsti grunnskólinn í Grafarvogi og stofnaður þegar hverfið var í hraðri uppbyggingu. Mikið hefur breyst síðan og hverfin þrjú sem sækja þjónustu í Foldaskóla, Húsahverfi, Foldahverfi og Hamrahverfi eru orðin gróin og ráðsett.
„Það er búið að ganga mjög vel í dag og verið góð mæting og fallegt veður. Við erum búin að fá marga góða gesti, borgarstjórinn var að fara en hann er búinn að vera með okkur í dag og skoða skólann með tveimur börnum sínum sem var mjög skemmtilegt,“ segir Kristinn Breiðfjörð, skólastjóri Foldaskóla í samtali við mbl.is.
„Síðan tókum við á móti Grænfánanum í fimmta skiptið við hátíðlega athöfn rétt áðan og vorum að flagga honum.“
Kristinn segir að gífurlegar breytingar hafi orðið í Grafarvogi síðan að skólinn var stofnaður árið 1985. „Skólinn var byggður í hraði. Það var byrjað um áramót og svo var flutt inn 1. september sama ár. Þá var allt hálfklárað en síðan byggðist þetta upp hægt og rólega. En uppbyggingin gekk hægar en nemandafjöldinn leyfði því hann óx svo hratt,“ segir Kristinn en árið 1990, fimm árum eftir stofnun, voru 1210 nemendur við Foldaskóla.
„Þá var skólinn reyndar með útibú í Hamrahverfi sem síðar varð sjálfstæður skóli,“ segir Kristinn. Eftir því sem fleiri skólar voru stofnaðir í Grafarvogi fækkaði nemendum Foldaskóla jafnt og þétt. „Árið 2012, áður en unglingastigið var sameinað hér í sunnanverðum Grafarvogi voru nemendurnir 360 talsins. Svo fjölgaði þeim í 500 haustið 2012 þegar að krakkarnir úr unglingastiginu komu hingað yfir. Það var mikil breyting.“
Að sögn Kristins hafa fjölmargir fyrrum nemendur skólans mætt á hátíðina í dag. „Við erum hérna með myndir á veggjunum af gömlum nemendum og fólk gengur um og skoðar.“
/heimild MBL.is
/ljósmyndir Golli