Fjölnishlaupið er einn af elstu íþróttaviðburðum hverfisins og verður að þessu sinni haldið á uppstigningardag, fimmtudaginn 25. maí. Er þetta í 29. sinn sem hlaupið er haldið.
Hlaupið verður ræst kl 11 við Grafarvogslaug. Frjálsíþróttadeild Fjölnis heldur hlaupið í samvinnu við Gaman Ferðir og með dyggri aðstoð Hlaupahóps Fjölnis. Keppt verður í tveimur vegalengdum: 10 km og 1,4 km skemmtiskokk.
Í fyrra sigraði Þórólfur Ingi Þórsson ÍR karlaflokkinn í 10 km hlaupinu á tímanum 34:09 og Arndís Ýr Hafþórsdóttir Fjölni sigraði kvennaflokkinn á tímanum 38:21. Í skemmtiskokkinu sigruðu Mikael Daníel Guðmarsson ÍR og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir ÍR.
Boðið er upp á tvær vegalegndir í hlaupinu; 1,4 km skemmtiskokk fyrir yngri aldurshópa og fjölskyldur og 10 km hlaupaleið sem telur til stiga í Powerade hlauparöðinni. Sjá nánar á heimasíðu hlaupanna: http://marathon.is/powerade og á hlaup.is.
Þátttökugjald fyrir 10 km er 2.000 kr í forskráningu á hlaup.is til miðnættis 24. maí en 3.000 kr ef skráð er samdægurs á staðnum. Skemmtiskokkið kostar 1.000 kr á mann og hámark 3.000 kr fyrir fjölskyldu (4 og fleiri). Ekki er hægt að forskrá sig í skemmtiskokkið. Afhending gagna og skráning á staðnum verður kl. 9:00-10:30 í anddyri Grafarvogslaugar í Íþróttamiðstöðinni í Dalhúsum.
Verðlaun verða veitt fyrir fyrstu þrjú sætin í 10 km hlaupi og 1. sæti í skemmtiskokki hjá báðum kynjum auk þess sem veglegir farandbikarar eru fyrir 1. sæti karla og kvenna í 10 km hlaupi. Verðlaunapeningar eru veittir fyrir 1. sæti í öllum aldursflokkum í báðum vegalengdum og þátttökupeningar eru fyrir þá sem vilja. Glæsileg útdráttarverðlaun verða dregin út eftir hlaup. Powerade drykkir verða í boði Vífilfells við 5 km snúningspunkt og í markinu. Frítt er í sund eftir hlaupið. Meðal vinninga í hlaupinu eru tveir 50.000 kr ferðavinningar frá Gaman Ferðum þannig að það er til mikils að vinna.
Aldursflokkar í hlaupunum eru:
10 km hlaup:
18 ára og yngri
19-39 ára
40-49 ára
50-59 ára
60 ára og eldri
Skemmtiskokk:
10 ára og yngri
11-12 ára
13-14 ára
15 ára og eldri
Frjálsíþróttadeildin hvetur alla til að koma og taka þátt í hlaupinu. Í skemmtiskokkinu er ávallt góð stemmning og er það sérstaklega vel til fallið fyrir yngri hlaupara. Einnig er gaman fyrir æfingahópa í Fjölni að brjóta upp starfið með þátttöku í hlaupinu og fyrir fjölskyldur í Grafarvogi að taka þátt.