Fjölnir stækkar með skautadeildum

Fjölnir bætir við sig Hokkídeild og Listskautadeild með samkomulagi við Skautafélagið Björninn.

Á framhaldsaðalfundi Skautafélagsins Bjarnarins í gær var samþykkt tillaga um að öll starfsemi félagsins skyldi yfirtekin af Ungmennafélaginu Fjölni og starfrækt þar frá 1. október 2018. Fundurinn var vel sóttur og var tillagan samþykkt með rúmlega 80% atkvæða. Öll starfsemi Bjarnarins verður lögð inn í Fjölni og þar verði stofnaðar tvær deildir, hokkídeild og listskautadeild, sem taka við núverandi starfi Bjarnarins og starfrækja það áfram undir merkjum Fjölnis. Við gildistöku þessa samkomulags munu allir starfsmenn og iðkendur Bjarnarins færast yfir til Fjölnis.

Fjölnir mun yfirtaka allar íþróttalegar skyldur Bjarnarins, eignir, skuldir og skuldbindingar við þjálfara, iðkendur og samstarfsaðila sbr. 1. mgr.

Eftir að samkomulagið öðlast gildi verður engin starfsemi í Skautafélaginu Björninn.

Núverandi stjórnir í hokkídeild og listskautadeild verða skipaðar stjórnir í sömu deildum hjá Fjölni fram að þeim tíma að haldnir verða aðalfundir í umræddum deildum þar sem kosning stjórna fer fram.

Íþróttabandalag Reykjavíkur styður þetta samkomulag og mun færa styrki vegna starfsemi deildanna yfir til Fjölnis frá og með 1. október 2018.

Í samræmi við framanritað mun Fjölnir taka formlega við umræddri starfsemi Bjarnarins frá og með 1. október 2018. Frá og með sama tíma mun Fjölnir taka þá yfir samninga við ÍBR og Reginn.

Við viljum bjóða nýja iðkendur, forráðamenn þeirra, þjálfara og starfsmenn velkomna í Fjölni og hlökkum til að vinna með þeim áfram það góða starf sem unnið var í Birninum.

Markmið okkar með þessu samkomulagi er að reka sterkari stoðir undir starfsemina almennt, bæta þjónustu og mæta auknum kröfum sem gerðar eru til íþróttafélagsins. Við þetta samkomulag verður Fjölnir 12 deilda félag og með um 4.000 iðkendur á öllum aldri. Með þessu styrkist staða félagins enn frekar í Egilshöll þar sem HJARTAÐ SLÆR. Þar verður félagið með starfsemi á samastað í knattspyrnu, handbolta, körfubolta, karate, fimleikum, frjálsum, íshokkí, listskautum, íþróttum eldri borgara, íþróttaakademíu í samstarfi við Borgarholtsskóla ásamt skrifstofu og félagsaðstöðu. Skákdeildin okkar er í Rimaskóla, sunddeildin er í sundlaug Grafarvogs og Laugardalslaug og svo erum við með tennisdeild í Tennishöllinni í Kópavogi en við erum að vinna í því að koma henni aftur í gang í Egilshöll á næstu mánuðum ásamt frekari uppbyggingu þar í framtíðinni enda félagið í stóru vaxandi hverfi og á marga iðkendur í austurborginni.

 

Um höfundinn

Sendu skilaboð

*

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.