Það er ánægjulegt að tilkynna að knattspyrnudeild Fjölnis hefur ráðið hinn reynslumikla Þorlák Árnason sem yfirþjálfara barna-og unglingastarfs félagsins. Þorlákur kemur til Fjölnis eftir tveggja ára veru í Svíþjóð þar sem hann hefur stýrt starfi yfirþjálfara hjá atvinnumannafélaginu IF Brommapojkarna. Þorlákur er einn af reynslumeiri yfirþjálfurum landsins. Áður en hann fór til Svíþjóðar stýrði hann U17 landsliðum Íslands bæði hjá strákum og stelpum og stýrði vali og leit að ungu afreksfólki á aldrinum 13 til 17 ára. Þorlákur stýrði meistaraflokki kvenna hjá Stjörnunni ásamt því að vera yfirþjálfari hjá því félagi til fimm ára. Einnig hefur hann starfað í fyrri tíð sem yfir- og meistaraflokksþjálfari hjá Val og Fylki. Þorlákur hefur byggt upp gott og mjög árangursríkt starf hjá öllum félögum sem hann hefur komið að og er ánægjulegt að fá hann til liðs við sterkan hóp þjálfara hjá Fjölni til að leiða áframhaldandi vöxt og uppbyggingu félagsins. Þorlákur hefur störf 15. september.
Á myndinni má sjá Þorlák á Extra vellinum í Grafarvogi ásamt þeim Árna Hermannssyni formanni knattspyrnudeildar og Viðari Karlssyni formanni Barna og unglingaráðs eftir að samningurinn hafði verið undirritaður.