Skagamenn eru komnir aftur á sigurbraut eftir frábæran sigur gegn Ólafsvíkingum sem virðast ekki geta hætt að tapa.
ÍA spilaði afar vel og átti skilið að sigra, en Þórður Þorsteinn Þórðarson, Garðar Bergmann Gunnlaugsson og Arnar Már Guðjónsson skoruðu mörkin.
Árni Vilhjálmsson skoraði fyrra mark Blika gegn Þrótti R. og hefði getað sett nokkur í viðbót í leiknum. Oliver Sigurjónsson skoraði seinna markið með glæsilegu skoti úr aukaspyrnu.
Bæði lið fengu frábær færi til að bæta við mörkum en gerðu ekki og góður sigur fyrir Blika í toppbaráttunni.
FH heldur toppsætinu eftir ósannfærandi sigur í toppbaráttuslag gegn Fjölni í Grafarvogi.
Það gerðist lítið í leiknum og fengu heimamenn bestu færin en það var Emil Pálsson sem gerði eina mark leiksins og stal sigrinum.
Hann kom inná á 86. mínútu og skoraði úr sinni fyrstu snertingu, með skalla eftir hornspyrnu.