Vikulegar skákæfingar Fjölnis á miðvikudögum hafa undantekningarlaust verið afar vel sóttar í vetur. Um 30 – 40 börn og unglingar hafa mætt á hverja einustu æfingu, bæði drengir og stúlkur. Á síðustu æfingu vetrarins voru krýndir afreks-og æfingameistarar vetrarins líkt og undanfarin ár.
Sæmundur Árnason fyrirliði skáksveitar Foldaskóla hlaut afreksbikarinn að þessu sinni og Ágúst Ívar Árnason í Rimaskóla var valinn æfingameistari vetrarins en þar var valið erfitt þar sem fjöldi Fjölniskrakka voru með 100% mætingu.
Í fyrsta sinn var verðlaunað fyrir peðaskák. Leikskólabarnið Svandís Gunnarsdóttir er óumdeilanlega peðaskákdrottning Fjölnis því þessi væntanlegi Rimaskólanemi varð í 1. – 3. sæti á Peðaskákmóti Fjölnis á sumardaginn fyrsta og var einnig efst stúlkna á Peðajólaskákmóti Hugins í des. sl.
Helgi Árnason formaður skákdeildar Fjölnis hefur haft umsjón með Fjölnisæfingunum í vetur og haft unga og efnilega Fjölnisskákmenn sér til aðstoðar ásamt hópi foreldra sem hefur séð um veitingar og aðra ómetanlega aðstoð við þessar fjölmennu skákæfingar.