WOW Reykjavik International Games – Íþróttahátíð í Reykjavík 26.jan-5.feb
Íþróttahátíðin WOW Reykjavik International Games fer fram dagana 26.janúar til 5.febrúar næstkomandi. Í tilefni 10 ára afmælis leikanna verður dagskráin sérstaklega glæsileg og hluti af Vetrarhátíð.
Leikarnir hefjast á kynningarfundi fyrir fjölmiðla fimmtudaginn 26.janúar og enda með glæsilegri hátíðardagskrá þann 5.febrúar. Keppt verður í 19 íþróttagreinum þar sem reiknað er með þátttöku á sjötta hundrað erlendra gesta ásamt flestu af besta íþróttafólki okkar Íslendinga. Von er á mjög sterkum erlendum keppendum til landsins í öllum greinum. Má þar nefna heimsmeistara og heimsmethafa í kraftlyftingum, silfurverðlaunahafi á Ólympíuleikum í fimleikum, Evrópumeistara í sundi og bronsverðlaunahafa á Ólympíuleikum í júdó.
Í ár verður í fyrsta skiptiboðið uppá spennandi „Off Venue“ dagskrá þar sem allir sem vilja geta tekið þátt. Á „Off Venue“ dagskránni eru meðal annars hjólasprettur upp Skólavörðustíg, hátíðir í Laugardalshöll þar sem boðið verður uppá kvöldverð og skemmtiatriði, 5 km skemmtiskokk um miðbæ Reykjavíkur sem ber heitið WOW Northern Lights Run, spennandi ráðstefnur með þekktum erlendum fyrirlesurum og fleira skemmtilegt.
WOW Northern Lights Run er nýr og skemmtilegur hlaupaviðburður fyrir almenning sem fram fer laugardagskvöldið 4.febrúar. Um er að ræða 5 km skemmtiskokk um miðbæ Reykjavíkur þar sem þátttakendur eru hluti af glæsilegri ljósasýningu. Allir þátttakendur fá meðal annars armband sem blikkar í takt við þeirra hlaupatakt og gleraugu sem lýsa í myrkrinu. Skráningu og nánari upplýsingar má finna á http://northernlightsrun.is/
Ráðstefnur WOW Reykjavik International Games eru sérstaklega spennandi í ár. Fyrri ráðstefnan verður 26.janúar kl.17:30-20:30 og ber hún yfirskriftina Lyfjamál í íþróttum. Fjallað verður um hvað íþróttafólk þarf að hafa í huga þegar það neytir fæðubótarefna, þekktur hjólreiðamaður segir frá reynslunni við að falla á lyfjaprófi og rannsóknarblaðamaðurinn sem kom upp um lyfjasvindl Rússa flytur áhugavert erindi. Seinni ráðstefnan fjallar um góða stjórnunarhætti og fer fram 2.febrúar kl.17:30-20:30. Þar munu þrír reyndir stjórnendur úr íþróttahreyfingunni sem koma frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Danmörku flytja fræðandi erindi um sína stjórnunarhætti. Öll eiga þau það sameiginlegt að hafa gert miklar breytingar á skipulagi sinna íþróttasambanda og náð mjög góðum árangri í kjölfarið. Nánari upplýsingar um ráðstefnurnar má finna hér: http://rig.is/index.php/radstefna
Heimasíða leikanna með upplýsingum á íslensku og ensku er www.rig.is
Allar nánari upplýsingar veitir undirrituð.
Kveðja
f.h. Íþróttabandalags Reykjavíkur
Anna Lilja Sigurðardóttir
Upplýsinga- og samskiptastjóri
annalilja@ibr.is
s. 535 3705